„Stoltur og ánægður,“ segir Jón Þór

Jón Þór Hauksson skrifaði í gær undir nýjan samning við Knattspyrnufélag ÍA – en hann hefur verið þjálfari meistaraflokks karla undanfarin ár. 

Nýi samningurinn er til þriggja ára – en Jón Þór tók við þjálfun liðsins í janúar 2022 þegar Jóhannes Karl Guðjónsson fór til KSÍ sem aðstoðarþjálfari A-landsliðs karla. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá KFÍA. 

Karlalið ÍA er í baráttu um þriðja sætið í Bestu deildinni þegar tvær umferðir eru eftir af Íslandsmótinu. ÍA vann góðan 4-1 sigur gegn FH á heimavelli í síðustu umferð – en næsti leikur ÍA er á heimavelli gegn Íslandsmistaraliði Víkings úr Reykjavík. Sá leikur fer fram 19. október en lokaumferðin fer fram 26. október. 

„Ég er stoltur og ánægður með að framlengja minn samning og vera treyst fyrir því mikilvæga starfi sem framundan er hjá ÍA. Ég hlakka til að vinna áfram með öflugu teymi þjálfara, leikmanna, stjórnar og starfsmanna. Ég vil einnig nota tækifærið og þakka kærlega þann stuðning sem liðið hefur fengið í sumar frá frábærum stuðningsmönnum ÍA sem geta sannarlega skipt sköpum. Það eru spennandi tímar framundan hjá félaginu og mikilvægt að tryggja áframhaldandi uppbyggingu til næstu ára“ segir Jón Þór Hauksson. 

„Við í stjórn Knattspyrnufélagsins erum mjög ánægð með að framlengja samninginn við Jón Þór. Við erum mjög ánægð með hvernig þróun liðsins hefur verið síðustu tímabil og erum mjög bjartsýn fyrir komandi misseri. Félagið hefur nú gengið frá ráðningu á öllum þjálfurum og erum mjög stolt af þeim frábæra hópi sem starfar fyrir félagið. Það er full ástæða fyrir stuðningsmenn félagsins að vera bjartsýn fyrir komandi tíma,” segir Eggert Herbertsson, formaður Knattspyrnufélags ÍA: