Verkalýðsfélag Akraness fagnar 100 ára afmæli í dag en það var stofnað þann 14. október 1924.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef félagsins – sem er í heild sinni hér fyrir neðan.
„Á þeirri öld sem liðin er hafa orðið gríðarlegar breytingar á atvinnulífinu, margir sigrar hafa unnist í verkalýðsbaráttunni og jafnframt hafa verið erfiðari tímar þar sem hert hefur að. Á þessum stóru tímamótum er Verkalýðsfélag Akraness bæði félagslega og fjárhagslega sterkt og heldur áfram að vinna með hag sinna félagsmanna fyrir brjósti enda eru alltaf næg verkefni til staðar þegar kemur að því að verja kaup og kjör verkafólks.
Í tilefni af 100 ára afmælinu hélt félagið opið hús á skrifstofunni að Þjóðbraut 1 föstudaginn 11. október á milli kl. 13 og 17. Boðið var upp á léttar veitingar og ýmsar gamlar myndir og munir voru til sýnis. Gríðarlega góð mæting var á opna húsið en gestir voru nokkur hundruð talsins og naut fólk þess að koma saman og samgleðjast félaginu.
Að kvöldi 11. október voru haldnir afmælistónleikar í Bíóhöllinni þar sem Helgi Björns og Reiðmenn vindanna skemmtu fyrir fullu húsi og voru þeir tónleikar mjög vel heppnaðir á allan hátt.
Um leið og félagið þakkar öllum þeim sem sáu sér fært að koma og fagna afmælinu síðastliðinn föstudag óskar það félagsmönnum sínum innilega til hamingju með daginn.
Í tilefni afmælisins gaf félagið út afmælisrit þar sem farið er yfir sögu Verkalýðsfélags Akraness. Hægt er að nálgast ritið á skrifstofu félagsins en það verður einnig fljótlega aðgengilegt í rafrænni útgáfu.“