Frábær sigur Skagamanna í grannaslagnum gegn Skallagrím

Karlalið ÍA í körfuknattleik vann góðan sigur gegn Skallagrím í Borgarnesi í gærkvöld. 

Þetta var þriðji sigurleikur ÍA í fyrstu fjórum umferðunum í næst efstu deild Íslandsmótsins í körfubolta. 

Skagamenn skoruðu 89 stig gegn 69 stigum heimamanna. ÍA var með 6 stiga forskot eftir fyrsta leikhluta, 19-13, og staðan var jöfn í hálfleik, 35-35. 

Í upphafi síðari hálfleiks náðu Skagamenn góðri forystu – og staðan var 63- 51 fyrir lokafjórðunginn. Þann mun gáfu leikmenn ekki eftir og lokatölur eins og áður segir – 89-69. 

Kinyon Hodges skoraði 20 stig fyrir ÍA og Styrmir Jónasson skoraði 18. Victor Bafutto skoraði 12 stig og tók 16 fráköst. 

Næsti leikur ÍA er gegn liði Snæfells úr Stykkishólmi – sá leikur fer fram í íþróttahúsinu við Vesturgötu föstudaginn 1. nóvember kl. 19:15.