Nýjar höfuðstöðvar Náttúrufræðistofnunar verða á Akranesi samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Ráðherra undirritaði nýverið viljayfirlýsingu við Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) um að styðja við uppbyggingu starfsstöðva Náttúrufræðistofnunar og fleiri opinberra stofnana ráðuneytisins á Vesturlandi.
Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins:
Í byrjun júlí á þessu ári sameinuðust Náttúrufræðistofnun Íslands, Landmælingar Ísland og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn (RAMÝ), í eina stofnun – Náttúrufræðistofnun. Um 80 manns starfa hjá Náttúrufræðistofnuninni í dag, þar af eru um 40 starfsmenn í starfstöðvum stofnunarinnar á Akranesi, Akureyri, Breiðdalsvík og í Mývatnssveit.
Sameining stofnananna er hluti af heildarendurskoðun og einföldun stofnanaskipulags ráðuneytisins sem einnig felur í sér stofnun nýrrar Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar. Við endurskoðunina er lögð sérstök áhersla á að fjölga störfum utan höfuðborgarsvæðisins og eru nýjar starfstöðvar stofnananna á landsbyggðinni.
Viljayfirlýsingin sem undirrituð var í dag er ætlað færa ný og laus störf stofnunarinnar á Vesturland, en í ályktun sem samþykkt var á Haustþingi Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi 2024 var skorað á ríkisstjórnina að fjölga opinberum störfum á Vesturlandi.
Einnig kemur fram í yfirlýsingunni að hluti starfsstöðva sem heyrir undir ráðuneytið og stofnanir þess verði í húsnæði Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Verður það útfært í samvinnu við stjórnendur viðkomandi stofnana. Verður verkefnið unnið í samvinnu við önnur ráðuneyti, Framkvæmdasýslu – Ríkiseignir, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Borgarbyggð. Á Hvanneyri eru mikil tækifæri til samstarfs og samvinnu Landbúnaðarháskólans og Náttúrufræðistofnunar á fjölbreyttum sviðum rannsókna og vöktunar náttúrunnar. Auk þess er Hvanneyri og náttúran umhverfis friðlýst svæði og einnig svokallað Ramsar-svæði, sem þýðir að öll nýting á svæðinu skal vera með sjálfbærum hætti með sérstaka áherslu á vernd votlendis og lífsvæði fyrir fugla á lands- og heimsvísu.
Náttúrufræðistofnun verður falið að vinna rannsóknaráætlun um vernd og nýtingu auðlinda í Breiðafirði í samstarfi við Náttúrustofur Vesturlands og Vestfjarða, Breiðafjarðarnefnd, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Fjórðungssamband Vestfjarða og fleiri aðila.
Einnig verður hafin undirbúningur að tilraunaverkefni um aukna landvörslu við Breiðafjörð, en fyrirséð er að stýra þarf aukinni ásókn ferðamanna til að viðhalda verndunargildi Breiðafjarðar, eyja og nágrennis.
Þá verður á næstu þremur árum verði stutt við áform um rannsóknir og samstarf vegna tilnefningar á Snæfellsnesi sem UNESCO vistvangs (Man and Biosphere), með áherslu á íbúa, samfélög og náttúru á Snæfellsnesi.
„Nýrri Náttúrufræðistofnun er ætlað að sinna rannsóknum og vöktun á náttúru Íslands og því er mikilvægt að starfsmenn stofnunarinnar séu þar sem viðgangsefnið er um allt land. Ég legg áherslu á að fjölga störfum á landsbyggðinni og í tilfelli Náttúrufræðistofnunar með sérstaka áherslu á Vesturland í góðri samvinnu við sveitarfélögin á svæðinu. Einnig er mjög spennandi fyrir stofnun sem sinnir rannsóknum og vöktun á náttúru Íslands að byggja upp starfsstöð á Hvanneyri í tengslum við Landbúnaðarháskólann og aðrar stofnanir sem eru þar fyrir,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.