Akranes verði fremsta heilsu-, íþrótta- og ferðamannamiðstöð Íslands

Aðsend grein um málefni Jaðarsbakka:  

Setjum okkur í spor þeirra 10 drengja sem söfnuðust saman 26. maí árið 1922 í kálgarði á Akranesi, í þeim tilgangi að eignast leikfang, fótbolta, sem þeir keyptu með því að leggja hart að sér við fiskvinnslu og öðrum störfum. Flest skiljum við atorkuna og áhugann sem hefur einkennt gildi þess að vera félagsmaður ÍA í þá öld sem liðin er.

Áhugi þeirra var hreinn og sterkur. Metnaður, vinnusemi og þrautseigja gerði þeim kleift að láta draum um að spila knattspyrnu rætast og hafa af því gleði og ánægju fyrir sjálfan sig.

Í kjölfarið fylgdi mikið sjálfboðaliðastarf, sem hefur síðan verið kjarninn í knattspyrnusögu Akraness sem og í öflugu starfi íþrótta á Akranesi.  Líkt og hjá ungu drengjunum í upphafi hefur þurft óteljandi vinnustundir forráðamanna, foreldra, leikmanna, dómara og í raun alls samfélagsins, til að stuðla að framgangi  íþrótta á Akranesi. Metnaður til árangurs á vellinum, í íþróttahúsinu og í lauginni hefur verið ríkjandi drifkraftur og áhersla verið lögð á aðstöðusköpun til að tryggja að sá árangur náist. Á þessum árum hafa verið byggðir knattspyrnuvellir, golfvöllur, golfskáli, íþróttahús, knattspyrnuhöll, sundlaugar, fimleikahús, keilusalur, reiðhöll og æfingaaðstaða. Ekki má svo gleyma því hvernig okkur hefur tekist að nýta Langasandinn sem hefur oft reynst sem hinn besti grasvöllur að sumarlagi. Sundið hefur átt sér djúpar rætur í bænum, þar sem sjórinn og sundæfingar hafa verið órjúfanlegur hluti af lífi bæjarbúa, ekki síst í tengslum við að auka öryggi sjómanna.  Sundkennsla fór í upphafi fram við náttúrulegar aðstæður, sérstaklega þar sem notaðar voru lítil lón og tjarnir og sjósund nálægt bænum til æfinga. Með uppbyggingu sundlauga skilaði Akranes af sér mörgum afburða sundmönnum sem kepptu á landsvísu og á stærsta sviðinu Ólympíuleikum.  Sama má segja um golfið, fimleikana og hestamannafélagið sem hafa blómstrað á síðustu árum og öll þau frábæru íþróttafélög sem starfa á Akranesi.

ÍA hefur fært okkur stuðningsmenn í blíðu og stríðu. Félagið hefur áorkað miklu, fært samfélaginu mikla gleði og ánægjustundir enda höfum við byggt upp félagið með áræðni, dugnaði og þrautseigju. Við öll íbúar á Akranesi sem tökum við starfi þeirra sem á undan hafa verið njótum ávaxtanna af þeirra starfi, en berum einnig ábyrgð á því að félagið þróist til framtíðar,  enda er markmiðið alltaf að vera í fremstu röð. 

Mörg risavaxin skref hafa verið tekin til að virkja kraftinn í ÍA og sjálfboðaliðar  lagt á sig ómælda vinnu fyrir félagið. Íþróttir hafa fært okkur spennu, tilhlökkun og fjölmörgum iðkendum heilsu og hreysti sem nýtist langt inn í lífið. Við eigum einstaka sögu þar sem margsannað er að besta knattspyrnulið landsins getur alveg eins komið frá litlum bæ eins og Akranesi. Líklega eigum við heimsmet miðað við höfðatölu í fjölda landsliðsmanna og leikmanna sem hafa haft atvinnu af því að spila knattspyrnu erlendis. Við samgleðjumst og fyllumst stolti þegar við sjáum syni og dætur vina og nágranna okkar ná árangri á alþjóðavettvangi. Þetta færir okkur nær börnunum okkar og vinum, skapar jákvæðar fyrirmyndir sem reynast oft vera bestu augnablik okkar hvort sem spilað er á efsta stigi eða í yngri flokkum.  

Á leikdegi höfum við sameinast, heilt samfélag kemur saman og fylkir sér á bakvið leikmennina sem fá þann heiður að spila fyrir Knattspyrnufélag ÍA. Við finnum lyktina af grasinu, grilluðu hamborgunum, svita leikmanna, kaffinu, kleinunum og poppinu. Við gleðjumst yfir fallegum mörkum, glæsilegri markvörslu, frábærri tæklingu eða knatttækni. Við ræðum leikinn næstu daga, hvað var gott og hvað má gera betur og lærum bæði af sigrum og ósigrum. Oft höfum við notið þess að mæta á leiki á úrslita stundu í sameiginlegri ástríðu okkar til að mynda gulan vegg klædd gulum og svörtum litum liðs okkar með það eitt að markmiði að hvetja lið okkar til sigurs. Þessar stundir hafa verið ógnvekjandi fyrir andstæðinga okkar en um leið töfrandi og lifa sterkt í minningu allra sem upplifðu.

Það má með sanni segja að knattspyrnufélagið ÍA sé sálin á Akranesi en aðrar íþróttagreinar einnig fært okkur mikla gleði og ánægju. Það sem einkennt hefur góðan árangur ÍA er sambland af samstöðu og baráttu íþróttafólks  og samstöðu samfélagsins á Akranesi um að styðja við félagið og allt sem að félaginu snýr jafnt þegar vel gengur sem og þegar á móti blæs. Við erum þakklát fyrir að vera Skagamenn og erum stolt af því að halda með ÍA. Við viljum hvetja þig sem lest þessi grein að hugsa hvaða drauma þú hefur fyrir félagið okkar til framtíðar og hvað við öll í sameiningu getum gert til að láta þá drauma rætast.

Ein samofin heild fyrir samfélagið

Við sem ritum nafn okkar undir þessa grein, viljum lyfta upp á hærri stall einstakri sérstöðu bæjarins í samræmi við þá sýn sem kynnt var á íbúafundi í Bíóhöllinni 23. október 2023 og á íbúafundi 10. janúar 2024. Við setjum þessa grein fram með fullri virðingu fyrir skoðunum annarra, því þannig verðum við betra samfélag og tökum réttar ákvarðanir út frá uppbyggilegum samtölum. 

Verkefnið miðar að því að breyta Akranesi í leiðandi áfangastað fyrir heilsu, íþróttir og ferðamennsku í einni samofinni heild. Við teljum þetta vera risastórt tækifæri fyrir Akranes, knattspyrnufélagið, sundfélagið og alla Skagamenn nær og fjær.  

Hér fyrir neðan eru helstu styrkleikar þeirrar framtíðarsýnar sem um leið er heilmikil nýsköpun fyrir bæinn okkar Akranes:

  1. Heilsu- og vellíðunarsetur

Ferðamenn streyma til Íslands fyrir einstaka fegurð og heilunarmátt jarðhitabaða. Baðlón á Íslandi eru frábært dæmi um blómlega heilsu- og vellíðunarferðamennsku á Íslandi. Akranes getur verið þátttakandi í þessari þessa þróun og með því að stofna alþjóðlegt heilsusetur með heilsulind og baðlóni, mun Akranes ekki aðeins laða að heilsuunnendur um allan heim heldur einnig bjóða heimamönnum framúrskarandi heilsu- og vellíðunaraðstöðu.

  1. Íþróttir – Hjarta Akraness

Íþróttir og íþróttaaðstaða hafa lengi verið kjarni í samfélagi Akraness. Nú er bærinn tilbúinn til að efla þessa sál á Akranesi. Með háþróaðri íþróttaaðstöðu og samvinnu við háskóla og ÍSÍ getur Akranes eflt íþróttamenningu bæjarins. Slíkt framtak mun ekki aðeins rækta íþróttahæfileika heimafólks heldur einnig laða að íþróttamenn og þjálfara í fremstu röð. Við getum gert Akranes að miðstöð fyrir íþróttaviðburði, þjálfun og menntun íþróttafólks. Að vera fyrsta íþróttasveitarfélagið og gera það af myndarskap í þágu allra íbúa barna, öryrkja, eldri borgara og fatlaðs fólks er göfugt markmið út af fyrir sig. Með því að bæta aðstöðu íþróttafólks almennt erum við að byggja undir íþróttakennslu skólanna, íþróttaiðkun fólks á öllum aldri sem og afreks íþróttafólk.

  1. Langisandur – Fremsta strönd Íslands

Langisandur er töfrandi strönd, eitt best geymda leyndarmál Íslands. Að bæta og kynna þessa náttúruperlu, gera Akranes að áfangastað fyrir strand- og náttúruunnendur og sjóböð. Með því verkefni sem fram undan er munum við lyfta fram einni bestu sjósunds aðstöðu Evrópu og þannig stuðla enn frekar að aðgengi að Langasandi.  Við trúum því að strandlengjan verði áfram sú náttúruperla fyrir íbúa sem hún hefur verið, enda er annað óhugsandi. 

  1. Heildstæð upplifun 

Markmið verkefnisins á Jaðarsbökkum er ekki að skapa eingöngu umhverfi fyrir ferðamenn, heldur einnig tryggja að íbúar og gestir geti upplifað Jaðarsbakka allan ársins hring. Umhverfið mun bjóða upp á spennandi tækifæri til afþreyingar og fjölbreyttra upplifun í samræmi við það sem íbúar hafa kallað eftir í mörg ár. Mikilvægt er í þessu sambandi að leggja áherslu á öryggi, þjónustu og umhverfisvernd, og þannig tryggja að hver gestur fari með dýrmætar minningar og íbúar njóti ávinnings.

  1. Sjálfbær ferðamennska – Leiðin fram á við

Þróun ferðamennsku hallast mikið að sjálfbærri ferðaþjónustu. Akranes getur nýtt sér þessa möguleika með því að auka sjálfbærni samfélagsins. Markmiðið verkefnisins er ekki aðeins að auka fótspor Akranes í ferðaþjónustu heldur að gera það á hátt sem auðgar staðbundna umhverfið, auðgar lífið á Akranesi og samfélagið allt. 

  1. Innviðaþróun: bættir innviðir

Þeir innviðir sem kynntir hafa verið í tengslum við verkefnið að Jaðarsbökkum miða við að innviðir gagnist jafnt íbúum og ferðamönnum. Lýðheilsumiðstöð er ætlað að vera samkomustaður Skagamanna og aðgengilegt allan ársins hring. Þá verður byggt upp heilsulind, líkamsræktarstöð, innanhúss sundlaug sem og bætt sundleikjaaðstaða fyrir börn. Afar mikilvæg er bætt aðstaða knattspyrnufélags ÍA sem og sundfélags ÍA, sem mun tryggja félögunum endurbætta aðstöðu sem rúmar þarfir félagsins til næstu 50 ára.

  1. Efling atvinnutækifæra. 

Akranes er varla þátttakandi í einum stærsta atvinnuvegi Íslands, ferðaþjónustunni.  Mikill vöxtur er fram undan og því er spáð að ferðamenn sækist í auknum mæli til norður hjara veraldar og þannig Íslands. Akranes er með verkefninu á Jaðarsbökkum að gera sig gildandi í þeirri þróun. Ávinningur af þessu getur orðið margfaldur fyrir ýmsa aðra atvinnustarfsemi á Akranesi.

  1. Knattspyrnuaðstaða stórbatnar. 

Með snúningi knattspyrnuvallarins að Jaðarsbökkum verður til sterkari samfella milli knattspyrnuhúss, knattspyrnuvallar og íþróttahúss og aðstaðan verður betur varin fyrir veðri og vindum. Nýjar vindvarnir og „gryfjan,“ sem verður til með þessu uppleggi, munu gera áhorfendum kleift að njóta leikja í enn meiri nálægð við leikmennina, sem eykur stemmingu og stuðning á heimaleikjum.

Betri aðstaða mun ekki aðeins bæta leikgleði og árangur knattspyrnumanna, heldur einnig styrkja íþróttamenningu bæjarins. Með uppbyggingu upphitaðs gervigrasvallar er hægt að efla knattspyrnustarfið allan ársins hring sem væri hægt að samnýta með núverandi knattspyrnuhöll aðgang að fyrsta flokks aðstöðu sem hjálpar yngri iðkendum að þróast áfram í sinni íþrótt. Slík aðstaða mun einnig nýtast samfélaginu öllu, með möguleikum á æfingabúðum, æfingum á vetrartíma og fjölbreyttari íþróttaviðburðum. Það sem meira er, „gryfjan“ gæti laðað að sér knattspyrnumót og aðra íþróttaviðburði sem skapa samstöðu og vekja stolt Skagamanna enn frekar. 

  1. Sundaðstaða stórbatnar.

Það hefur verið lengi kallað eftir yfirbyggðri sundlaug, bæði til að bæta aðstöðu til æfinga og keppni fyrir íþróttafólk og til að mæta þörfum almennings og stórbæta þannig sundaðstæður fyrir börn og fjölskyldur. Slík laug myndi ekki aðeins nýtast bæjarbúum til almennrar sundþjálfunar og kennslu heldur einnig veita aðstöðu til afreksíþrótta. Þar gætu íþróttafólk og félög haldið æfingar og mót allt árið um kring, óháð veðri, sem yrði lyftistöng fyrir alla sundmenningu og íþróttaiðkun á svæðinu.

Eggert Herbertsson, formaður knattspyrnufélags ÍA, sagði í viðtal 9. nóvember 2022 að “Sagan má ekki vera myllusteinn”. Ákall hefur sömuleiðis verið frá formönnum sundfélags ÍA um langa hríð um 50 metra yfirbyggða sundlaug.  Sagan er skráð og rituð en framtíðin er björt og ríkuleg. Með þessum hugmyndum að uppbyggingu á Jaðarsbökkum er verið að svara þessu ákalli með þeim metnaði að þróast áfram til framtíðar. Í þessu felst heilmikil nýsköpun fyrir bæjarfélagið okkar.  Nýsköpun snýst um að þora að hugsa stórt og hafa hugrekki til að framkvæma.  Bæjarstjórn hefur tekið skref í þá átt með þessari glæsilegu framtíðarsýn.  Sýnin mun ekki verða til í einum vettvangi en stíga þarf skrefin markvisst og taktfast.

Við viljum hvetja bæjarstjórn, íþróttahreyfinguna og hagsmunaaðila að vinna ótrauð áfram að framgangi þessa metnaðarfulla verkefnis öllu samfélaginu okkar til heilla.

  • Alfreð Freyr Karlsson, atvinnurekandi
  • Almar Geir Alfreðsson, framkvæmdastjóri
  • Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri
  • Bjarki Jóhannesson, fyrrv. leikmaður mfl.kk KFÍA
  • Brynja Kolbrún Pétursdóttir, fv. formaður badmíntonfélags Akranes
  • Díana Bergsdóttir, þjálfari og atvinnurekandi
  • Ella María Gunnarsdóttir, stjórnarm. Golfklúbbsins Leynis
  • Elsa Lára Arnardóttir, aðstoðarskólastjóri
  • Eyleifur Jóhannesson yfirmaður landsliðsmála hjá Sundsambandi Íslands
  • Emil Kristmann Sævarsson, framkvæmdastjóri
  • Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir, forstöðum. markaðsmála, fv. leikm. mfl.kvk KFÍA
  • Guðný Jóna Ólafsdóttir, verkefnastjóri
  • Guðjón Guðmundsson, fyrrv. gjaldkeri og varaform. knattspyrnuráðs ÍA
  • Guðni R. Tryggvason, fyrrv.form. fimleikafélagsins og atvinnurekandi 
  • Guðrún Lind Gísladóttir, fjármálastjóri
  • Heimir Fannar Gunnlaugsson, fyrrv. stjórnarm. KFÍA
  • Helga Björg Þrastardóttir, matreiðslumaður
  • Heiðrún Sara Guðmundsdóttir, fyrrv. leikm. mfl.kvk KFÍA
  • Hjálmur Hjálmsson, fyrrv. stjórnarm. KFÍA
  • Hrefna Rún Ákadóttir, fyrrv. leikm. Mfl.kvk KFÍA
  • Hróðmar Halldórsson, form. Golfklúbbsins Leynis
  • Ingi Björn Róbertsson, blikksmíðameistari
  • Ívar Orri Kristjánsson, knattspyrnudómari
  • Jófríður María Guðlaugsdóttir, fyrrv. stjórnarkona KFÍA
  • Jóhannes Gíslason, fyrrv. leikm. MFL KK
  • Jónas Kári Eiríksson, forstöðumaður
  • Martha Lind Róbertsdóttir, þroskaþjálfi og forstöðumaður búsetuþjónustu
  • Páll Gísli Jónsson, fyrrv. leikm. og þjálfari mfl.kk KFÍA
  • Ragnheiður Jónasdóttir, fyrrv. leikm. mfl.kvk KFÍA
  • Ragnhildur Helgadóttir, hjúkrunarfræðingur 
  • Rakel Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Leynis
  • Rakel Rósa Þorsteinsdóttir, sérfræðingur
  • Rúnar Geir Þorsteinsson, rafiðnfræðingur
  • Stefán Orri Ólafsson, lögfræðingur
  • Silja Sif Engilbertsdóttir, markaðsfulltrúi
  • Sævar Freyr Þráinsson, fyrrv. stjórnarm. KFÍA
  • Sævar Haukdal, fyrrv. form. Fimleikaf. FIMA
  • Úrsúla Ásgrímsdóttir, grunnskólakennari
  • Valdimar Ingi Brynjarsson, form. Sundfélags Akraness
  • Valgerður Valsdóttir, grunnskólakennari
  • Valdís Kvaran, atvinnurekandi
  • Vigdís Elfa Jónsdóttir, fyrrv. stjórnarkona KFÍA
  • Þórður Þórðarson, fyrrv. þjálfari mfl kk og kvk KFÍA
  • Örn Gunnarsson, fyrrv. stjórnarm. KFÍA