Njörður Holding ehf. hefur kynnt sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar og bæjarstjórn Akraness áform þess efnis að byggja magnesíumverksmiðju við Grundartanga.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.
Stefán Ás Ingvarsson, forstjóri fyrirtækisins, segir í viðtali að stefnt sé að fyrstu skóflustungu árið 2026.
Verksmiðjan mun vinna magnesíum úr sjó með nýrri aðferð sem Njörður hefur þróað og er sjálfbær og umhverfisvæn. Fyritækið gæti skapað allt að 170 störf þegar verksmiðjan hefur rekstur. Áætlaður kostnaður við byggingu verksmiðjunnar eru 30 milljarðar kr.
Stefán segir reynslumikla aðila standa að verkefninu. Sjálfur er Stefán rafmagnsverkfræðingur með rannsóknaraðstöðu við Stanford-háskóla í Kaliforníu, þar sem hann býr og starfar.