Aðsend grein:
Íslenskir bændur lifa ekki af launum sínum, eru í stöðugum taprekstri og þurfa að vinna tvöfalt jafnvel þrefalt á við annað fólk. Það er mikilvægt að í nýju stuðningskerfi landbúnaðarins fái bændur mannsæmandi laun fyrir að sinna því mikilvæga samfélagshlutverki að framleiða matinn sem við hin þurfum á að halda, yrkja land og huga að umhverfinu. Matvælaframleiðsla er ekki aðeins mikilvæg fyrir heilsu almennings og efnahag, heldur einnig grundvöllur sjálfstæðis okkar sem þjóðar. Við verðum að horfast í augu við þá pólitísku staðreynd að án bænda verður enginn íslenskur landbúnaður.
Til að raunverulegt fæðuöryggi verði til staðar á Íslandi er nauðsynlegt að tryggja afkomu bænda og efla nýliðun í landbúnaði. Meðalaldur bænda hérlendis er hár, fleiri bændur hætta búskap en hefja búskap og rekstrarumhverfi landbúnaðar ekki fýsilegt fyrir ungt fólk að stíga inn í. Þar spila saman sveiflur efnahagslífsins og viðhorf neytenda, auk dvínandi tollverndar. Á sama tíma standa bændur frammi fyrir áskorunum íslenskrar veðráttu og loftslagsbreytinga sem eru þegar farnar að gera vart við sig eins og sást síðastliðið sumar, ef sumar skyldi kalla.
Staða bænda er pólitískt vandamál sem krefst pólitískra lausna
Það þarf að endurskoða stefnur til að tryggja sanngjarnan og skynsamlegan stuðning við bændur, sérstaklega þegar horft er til náttúruverndar og viðhalds landgæða og vistkerfa. Nýliðar þurfa aðgang að þolinmóðu fjármagni sem gerir þeim kleift að byggja upp sjálfbæran rekstur yfir lengri tíma. Þetta er ekki bara spurning um atvinnugrein; þetta er spurning um sjálfstæði þjóðarinnar og framtíð byggðar í dreifbýli.
Bændur eru í fremstu víglínu í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Landbúnaður er viðkvæmur fyrir áhrifum loftslagsins, en bændur hafa sýnt ábyrgð með því að draga úr losun á hverja framleiðslueiningu um 30%, jafnframt því að auka framleiðslu. Og enn þarf að auka framleiðsluna því samkvæmt mannfjöldaspám verður fjölgun á íbúum þessa lands um þriðjung á næstu áratugum. Loftslagsvænn landbúnaður hefur því aldrei verið mikilvægari. Við viljum styrkja möguleika bænda til þess að byggja afkomu sína á náttúruvernd og endurheimt landgæða, enda eru þeir vörslumenn landsins sem framleiða umhverfisvæn og heilsueflandi matvæli fyrir komandi kynslóðir. Það þarf áframhaldandi stórátak í íslenskri kornrækt og aukinn afslátt á rafmagni til grænmetisbænda.
Verðmætasköpun í fullvinnslu
Sjálfbærni og verðmætasköpun í landbúnaði byggist líka á því að bændur hafi frelsi og tækifæri til að fullvinna eigin afurðir. Það er lykilatriði til að efla staðbundna framleiðslu, styðja við byggðir og auka verðmæti íslensks landbúnaðar. Til þess að svo megi verða þarf að aðlaga regluverk og þannig að smáframleiðendur og nýsköpun fái að njóta sín. Með einfaldara og sveigjanlegra regluverki er hægt að skapa umhverfi þar sem íslenskir bændur geta þróað fjölbreyttar vörur sem styrkja bæði afkomu þeirra og íslenskan matvælaiðnað.
Kveikjum ljósin í sveitinni
Norðvesturkjördæmi, eitt stærsta landbúnaðarhérað landsins, er skýrt dæmi um hvernig öflugur landbúnaður getur styrkt byggðir og skapað blómlegt samfélag. En uppkaup auðmanna og yfirboð í jarðir eru vá sem þarf að setja skorður. Við viljum að landbúnaðarland sé notað til matvælaframleiðslu. Við verðum að bregðast við með því að setja lög um ábúðarskyldu til að koma í veg fyrir að fjársterkir aðilar grafi undan framtíð íslensks landbúnaðar og byggða. Ásóknin í jarðir er vegna mögulegrar nýtingu þeirra til einhvers annars en landbúnaðar, eins og orkuöflunar, aðgengis að fersku vatni eða til skógræktar. Yfirboð auðmanna gerir nýliðun í búskap nær ómögulega til langframa. Við verðum að bregðast við til að koma í veg fyrir að ljósin slokkni í sveitum meira en orðið er.
Álfhildur Leifsdóttir oddviti VG í Norðvesturkjördæmi