Kalman – tónlistarfélag Akraness heldur tónleika í Vinaminni nk. fimmtudag, 21. nóvember kl. 20.
Þar koma fram þau Guðrún Jóhanna Ólafsóttir mezzósópran og Francisco Javier Jáuregui gítarleikarari. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Tónleikarnir bera yfirskriftina Snert hörpu mína en þar kynna þau lög af geisladiski sem þau gáfu út nýlega og ber nafnið Atli Heimir Sveinsson – sönglög með gítar.
Atli Heimir er án efa í hópi fremstu tónskálda Íslands í að búa til eftirminnileg sönglög þar sem ljóðið fer á flug. Hann hafði sérstakt lag á að leyfa textanum að njóta sín í fallegum laglínum sem þjóna ljóðinu.
Þegar Francisco Javier Jáuregui kynntist sönglögum Atla Heimis dáðist hann að þeim hæfileika sem Atli Heimir hafði til að búa til eftirminnilegar og auðþekkjanlegar laglínur, sem jafnvel gætu staðið einar sér og fara einstaklega vel með gítarmeðleik. Áður en Atli Heimir lést hvatti hann Francisco Javier til að útsetja fyrir rödd og klassískan gítar sönglög sem Atli hafði upprunalega samið fyrir rödd og píanó. Geisladiskurinn er uppskera þeirrar vinnu og heyrast útsetningarnar á honum í fyrsta skipti á upptökum. Á tónleikunum flytja þau Guðrún og Javier einnig bandarísk þjóðlög eftir og innblásin af John Jacob Niles, og íslensk lög eftir þau sjálf, Jón Ásgeirsson og Hauk Tómasson.
Aðgangseyrir er kr. 4.000 og kr. 3.500 fyrir Kalmansvini.
Miðasala er við innganginn.
Boðið verður upp á kaffi/te og konfekt.
Við hvetjum Kalmansvini til að fjölmenna og taka með sér gesti til að efla tónlistarfélagið okkar og tónlistarlíf á Akranesi.
GUÐRÚN JÓHANNA ÓLAFSDÓTTIR mezzósópran hefur komið fram á tónleikum vítt og breitt um Evrópu, í Suður- Ameríku, Bandaríkjunum og Afríku í tónleikasölum svo sem Henry le Boeuf Hall í Bozar í Brussel, Auditorio Nacional de Música og Teatro Real í Madrid, Glinka sal Fílharmóníunnar og Belozelsky-Belozersky höllinni í St. Pétursborg, Coliseo í Buenos Aires, Wigmore Hall og Royal Festival Hall í London.
Hún hefur sungið m.a. með Sinfóníuhljómsveitum Íslands, Madrídar, Barselóna, Katalóníu, Sjónvarps- og Útvarpshljómsveit Spánar, St. Petersburg State Symphony Orchestra og Philharmonia Orchestra í London. Guðrún hefur sungið í óperum á Spáni, Bretlandi og Íslandi og frumflutt fjölda tónverka eftir íslensk og erlend tónskáld. Hún myndar dúó með gítarleikaranum Francisco Javier Jáuregui og syngur reglulega með Sonor Ensemble, sem saman stendur af hljóðfæraleikurum úr Sinfóníuhljómsveit Spánar undir stjórn Luis Aguirre.
Guðrún stundaði söngnám í Tónlistarskólanum í Rvk og Guildhall School of Music and Drama í London, en þar lauk hún meistaragráðu í söng og óperudeild skólans. Hún hefur hlotið Kathleen Ferrier ljóðasöngsverðlaunin í Wigmore Hall, The Miriam Licette Scholarship í Konunglega óperuhúsinu Covent Garden, 3. verðlaun í Concorso Vocale Internazionale di Musica Sacra í Róm, ljóðasöngsverðlaunin í hinni Alþjóðlegu söngkeppni Zamoraborgar á Spáni og verðlaun sem Besti flytjandi tónlistar eftir Rodrigo í Rodrigo keppninni í Madríd. Söngur Guðrúnar hefur verið hljóðritaður á vegum RÚV, Sjónvarpsins, BBC, Spænska ríkisútvarpsins og Spænska sjónvarpsins. Hún hefur sungið inn á sextán geisladiska, m.a. á vegum 12 tóna, Smekkleysu, Naxos, ABU Records, EMEC Discos og Orpheus Classical. Guðrún var nýverið ráðin skólastjóri Söngskólans í Reykjavík. Guðrún er stofnandi og listrænn stjórnandi Sönghátíðar í Hafnarborg ásamt Francisco Javier Jáuregui. www.gudrunolafsdottir.com
Spænski gítarleikarinn og tónskáldið FRANCISCO JAVIER JÁUREGUI stundaði nám í klassískum gítarleik í Los Angeles og Madríd áður en hann útskrifaðist með meistaragráðu frá Guildhall School of Music and Drama í London, þar sem hann stundaði einnig nám í spuna og tíorbuleik. Javier hefur komið fram á tónleikum, bæði sem einleikari og flytjandi kammertónlistar, á Spáni, Ítalíu, Möltu, Íslandi, í Englandi, Skotlandi, Frakklandi, Bandaríkjunum, Marokkó og Suð-Austur Asíu. Hann hefur flutt gítarkonserta eftir Vivaldi og Rodrigo (Concierto de Aranjuez) og önnur verk með sinfóníuhljómsveitunum Schola Camerata og Santa Cecilia á Spáni og Sonor Ensemble. Javier kemur reglulega fram með Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur mezzósópran, með Elenu Jáuregui fiðluleikara sem Roncesvalles dúóið og með þeim báðum sem Aglaia tríóið.
Javier hefur tekið þátt í verkefnum í tónlistarmenntun á vegum Wigmore Hall í London frá árinu 2001. Hann er einn stofnenda og stjórnenda Festival Internacional de Música de Navarra (FIMNa) á Spáni og Sönghátíðar í Hafnarborg. Hann kenndi klassískan gítarleik við King ́s College og St. Louis University í Madríd, þar sem hann var yfirmaður tónlistardeildarinnar áður en hann flutti til Íslands en hann kennir nú á gítar við Tónskólann í Reykjavík. Francisco Javier Jáuregui er stofnandi og listrænn stjórnandi Sönghátíðar í Hafnarborg ásamt Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur.
www.javierjauregui.com