Andrea Þórunn Björnsdóttir, eða amma Andrea, fékk í gær viðurkenningu Barnaheilla – Save the Children á Íslandi. Flotinn – flakkandi félagsmiðstöð fékk einnig viðurkenninguna sem er veitt árlega – en þetta var í 23. sinn sem þessi viðurkenning er afhent. Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, afhenti verðlaunin. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Barnaheilla.
Barnaheill veita einstaklingum, verkefnum eða öðrum viðurkenningu fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra. Þetta er þó í fyrsta sinn sem tvær viðurkenningar eru afhentar.
„Það er okkur hjá Barnaheillum sönn ánægða að veita Flotanum – flakkandi félagsmiðstöð og ömmu Andreu Viðurkenningu Barnaheilla árið 2024 fyrir ómetanleg störf sín í þágu barna og eljuna við að bæta samfélagið börnum í hag,“ segir Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, formaður stjórnar Barnaheilla.
Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, afhenti Karenu Rún Helgadóttur og Hjörleifi Steini Þórissyni frá Flotanum og Ömmu Andreu viðurkenninguna og hélt stutt ávarp.
Auk viðurkenningarinnar ákváðu Barnaheill að veita viðurkenningarhöfum í fyrsta sinn peningastyrk að upphæð 500 þúsund krónur sem nýta á í þau frábæru verkefni sem þau halda úti.
Andrea Þórunn Björnsdóttir, sem gengur undir nafninu amma Andrea, er mörgum kunn á Akranesi og víðar fyrir góðmennsku sína og náungakærleik. Í fjölda ára hefur hún staðið fyrir söfnunum til að styðja við fjölskyldur sem eiga um sárt að binda vegna veikinda eða annarra áfalla.
Framtak Andreu er einstakt og ósérhlífið en myndi ekki ganga upp nema vegna aðkomu þeirra sem gefa söluvarning og þeirra sem kaupa hann eða styrkja starfið að öðru leyti. Því má segja að þetta góðverk ömmu Andreu sé fyrirmyndar samfélagsverkefni þar sem stórkostlegt einstaklingsframtak hennar sé öðrum hvatning til að láta gott af sér leiða.