Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans voru kynntar nýverið.
Skagakonan Eva Björg Ægisdóttir er tilnefnd fyrir bók sína „Kvöldið sem hún hvarf – en bókin er í flokki glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans. Eva Björg fékk þessa viðurkenningu í fyrra fyrir bókina „Heim fyrir myrkur“.
Handhafi Blóðdropans verður, líkt og áður, framlag Íslands til norrænu glæpasagnaverðlaunanna Glerlykilsins.
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, mun afhenda bæði verðlaunin um mánaðamótin janúar-febrúar á komandi ári.
Íslensku bókmenntaverðlaunin voru fyrst veitt árið 1989 og er ætlað að draga fram athyglisverðustu útgáfubækur hvers árs. Þetta er í 36. sinn sem tilnefnt er til verðlaunanna.
Þau sem eru tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Blóðdropans 2024.
Upphæð verðlauna er ein milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk. Félag íslenskra bókaútgefenda kostar verðlaunin. Tilnefndar eru bækur í fjórum flokkum; til íslensku glæpasagnaverðlaunanna, í flokki barna- og ungmennabóka, í flokki fræðibóka og rita almenns efnis og í flokki skáldverka.
Formenn dómnefndanna fjögurra, Björn Teitsson, Kristín Ásta Ólafsdóttir, Unnar Geir Unnarsson og Viðar Eggertsson munu koma saman ásamt forsetaskipuðum formanni, Kristínu Ingu Viðarsdóttur, og velja einn verðlaunahafa úr hverjum flokki.
Tilnefningar til Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans:
Brúðumeistarinn eftir Óskar Guðmundsson. Útgefandi er Storytel.
Dauðinn einn var vitni eftir Stefán Mána. Útgefandi er Sögur útgáfa.
Kvöldið sem hún hvarf eftir Evu Björgu Ægisdóttur. Útgefandi er Veröld.
Týndur eftir Ragnheiði Gestsdóttur. Útgefandi er Björt bókaútgáfa.
Völundur eftir Steindór Ívarsson. Útgefandi er Storytel og Sögur útgáfa.
Dómnefnd skipuðu Ásrún Matthíasdóttir, Mjöll Snæsdóttir og Unnar Geir Unnarsson, formaður dómnefndar.
Tilnefningar í flokki barna- og ungmennabóka:
Kasia og Magdalena eftir Hildi Knútsdóttur. Útgefandi er JPV útgáfa.
Kærókeppnin eftir Emblu Bachmann og Blævi Guðmundsdóttur myndhöfund. Útgefandi er Bókabeitan.
Sigrún í safninu eftir Sigrúnu Eldjárn. Útgefandi er Mál og menning.
Tjörnin eftir Rán Flygenring. Útgefandi er Angústúra.
Vísindalæsi 5 – Kúkur, piss og prump eftir Sævar Helga Bragason og Elías Rúna myndhöfund. Útgefandi er JPV útgáfa.
Dómnefnd skipuðu Einar Eysteinsson, Kristín Ásta Ólafsdóttir, formaður dómnefndar og Sigríður Wöhler.
Tilnefningar í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:
Börn í Reykjavík eftir Guðjón Friðriksson. Útgefandi er Mál og menning.
Listdans á Íslandi eftir Ingibjörgu Björnsdóttur. Útgefandi er Hið íslenska bókmenntafélag.
Óli K. eftir Önnu Dröfn Ágústsdóttur. Útgefandi er Angústúra.
Svipur brotanna – Líf og list Bjarna Thorarensen eftir Þóri Óskarsson. Útgefandi er Hið íslenska bókmenntafélag.
Tónar útlaganna – Þrír landflótta tónlistarmenn sem mótuðu íslenskt menningarlíf eftir Árna Heimi Ingólfsson. Útgefandi er Hið íslenska bókmenntafélag.
Dómnefnd skipuðu Björn Teitsson, formaður dómnefndar, Kristín Ýr Pétursdóttir og Þorvaldur Sigurðsson.
Tilnefningar í flokki skáldverka:
Ferðalok eftir Arnald Indriðason. Útgefandi er Vaka Helgafell.
Himintungl yfir heimsins ystu brún eftir Jón Kalman Stefánsson. Útgefandi er Benedikt bókaútgáfa.
Jarðljós eftir Gerði Kristnýju. Útgefandi er Mál og menning.
Moldin heit eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur. Útgefandi er Drápa.
Móðurást: Draumþing eftir Kristínu Ómarsdóttur. Útgefandi er Mál og menning.
Dómnefnd skipuðu Gunnlaugur Ástgeirsson, Kris Gunnars og Viðar Eggertsson sem jafnframt var formaður dómnefndar.
Félag íslenskra bókaútgefenda gerði samkomulag við Íslenska glæpafélagið árið 2022 um að taka yfir verklega framkvæmd Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans ásamt að kosta verðlaunin með sama hætti og Íslensku bókmenntaverðlaunin. Handhafi Blóðdropans verður, líkt og áður, framlag Íslands til norrænu glæpasagnaverðlaunanna Glerlykilsins.