Fjárfestinga og framkvæmdaáætlun Akraneskaupstaðar 2025-2028 var samþykkt í bæjarstjórn Akraness s.l. þriðjudag. Dregið verður verulega úr fjárfestingum og framkvæmdum á næsta ári eftir miklar fjárfestingar og uppbyggingu undanfarinna ára.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar, sem eru í meirihluta, greiddu alls 6 atkvæði en 3 fulltrúar Framsóknar og frjálsra greiddu ekki atkvæði og sátu því hjá.
Í fjárhagsáætlun ársins 2025 er gert ráð fyrir að rekstrarafkoma A- hluta bæjarsjóðs verði jákvæð um tæplega 226 milljónir króna og að rekstrarafkoma A- og B- hluta verði jákvæð um samtals rúmar 253 milljónir króna.
Á sama tíma gerir fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun ráð fyrir fjárfestingum upp á tæplega 2,4 milljarða króna, en að teknu tilliti til tekna af gatnagerðargjöldum verða nettó fjárfestingar kaupstaðarins tæplega 330 milljónir króna, sem er aðeins um einn tíundi þess sem varið var til fjárfestinga í áætlun ársins 2024.
Gjaldskrár kaupstaðarins hækka almennt um 5,6% nema annað sé sérstaklega tilgreint í viðkomandi gjaldskrám. T.d. eru gjaldskrár sem tengjast börnum og barnafjölskyldum ekki hækkaðar um meira en 3,5 %.
Lokafrágangur við nýtt íþróttahús við Jaðarsbakka sem er í byggingu er stærsta verkefnið á árinu 2025 – en alls verða um 740 milljónir settar í þá framkvæmd. Í Brekkubæjarskóla er gert ráð fyrir tæplega 250 milljónum kr. í fjárfestingar og 62 milljónum kr. í framkvæmdir.
Ný samfélagsmiðstöð við Dalbraut fær um 1,2 milljarða kr. í áætlun ársins 2028. Samfélagsmiðstöðin er framtíðarhúsnæði fyrir Fjöliðjuna, Hver og Þorpið og er gert ráð fyrir að bjóða út verkefnið árið 2025. Akraneskaupstaður ætlar kaupa neðstu hæðina í þeirri byggingu sem mun rísa á byggingareitnum við Dalbrautina.
Ekki er gert ráð fyrir framkvæmdum á nýju ráðhúsi á þessu tímabili eða næstu þrjú ár. Það sama gildir um nýja innilaug á Jaðarsbakkasvæðinu – sem er ekki á fjárfestinga – eða framkvæmdaáætlun næstu þrjú árin.
Framkvæmdum við útivistar – og leiksvæði á Merkurtúni er frestað samkvæmt áætluninni – en gert var ráð fyrir 30 milljónum kr. í verkefnið í fyrri umræðu bæjarstjórnar.
Gert er ráð fyrir að bygging á nýjum leikskóla í eldri bæjarhluta Akraness hefjist árið 2027 og er gert ráð fyrir 770 milljónum kr. í það verkefni árið 2027 og einnig er gert ráð fyrir 770 milljónum kr. í þá fjárfestingu árið 2028.
Uppbygging valla og stúku á Jaðarsbökkum fær 50 milljónir kr. árið 2026 í fjárfestingaáætluninni Árið 2027 er gert ráð fyrir 450 milljóna kr. fjárfestingu á Jaðarsbökkum – og 356 milljónum árið 2028. Samtals 856 milljónir kr. Ekki kom fram á bæjarstjórnarfundinum í hvaða verkefni á að ráðast á Jaðarsbökkum sem tengjast stúku og völlum.
Í fyrri umræðu um fjárfestingar -og framkvæmdir næstu þrjú árin var gert ráð fyrir viðamiklum framkvæmdum á Akraneshöllinni. Þessi framkvæmd er ekki skilgreind sérstaklega í lokaútgáfunni sem samþykkt var á bæjarstjórnarfundinum þann 10. desember s.l.
Nánar í skjölum fundargerðar bæjarstjórnar hér fyrir neðan:
- Fjárhagsáætlun 2025-2028.
- Sundurliðunarbók áætlun 2025-2028.
- Kynning bæjarstjóra seinni umræða.
- Fjárfestingar og framkvæmdaáætlun 2025-2028.
- 2024 – Tillögur bæjarstjóra_bæjarráð_SA – desember – SA.doc
- Bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar við síðari umræðu um fjárhagsáætlun þann 10. desember 2024.