Fjárfestinga og framkvæmdaáætlun Akraneskaupstaðar 2025-2028 var samþykkt í bæjarstjórn Akraness s.l. þriðjudag. Dregið verður verulega úr fjárfestingum og framkvæmdum á næsta ári eftir miklar fjárfestingar og uppbyggingu undanfarinna ára.
Ekki er gert ráð fyrir framkvæmdum á nýju ráðhúsi á þessu tímabili eða næstu þrjú ár.
Í júlí á þessu ári var skrifað undir viljayfirlýsingu um viðamikla uppbyggingu á Mánabraut 20 á Akranesi.
Þar er gert ráð fyrir aðstöðu fyrir ráðhús Akraneskaupstaðar, leiguhúsnæði fyrir stofnanir ríkisins á Akranesi og aðstöðu fyrir nýja heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar vesturlands á Akranesi (HVE).
Viljayfirlýsingin fól í sér að Akraneskaupstaður hyggst endurbyggja Mánabraut 20 þar sem stefnt er að því að ný bygging muni hýsa ráðhús Akraneskaupstaðar og mögulega fleiri stofnanir sveitarfélagsins. Ríkið lýsir yfir áhuga á að leigja aðstöðu í nýju húsnæðinu fyrir starfsemi ríkisstofnana á Akranesi
Gamla skrifstofubygging Sementsverksmiðjunnar við Mánabraut 20, hefur til þessa dags verið í sameign Ríkis og Akraneskaupstaðar. Nú hefur Akraneskaupstaður eignast alla bygginguna.