Einar Margeir náði flottum árangri á HM í 25 metra laug


Skagamaðurinn Einar Margeir Ágústsson náði flottum árangri á Heimsmeistaramótinu í sundi í 25 metra laug sem fram fór í Búdapest í Ungverjalandi.

Íþróttamaður Akraness 2023 varð í 20. sæti í100 metra fjórsundi þar sem hann synti á 54,36 sekúndum.

Hann keppti einnig í 200 metra bringusundi þar sem hann endaði í 27. sæti. Í því sundi bætti hann árangurinn sinn en hann kom í mark á 2.09,97 mín. Er hann yngsti sundmaðurinn frá Íslandi sem nær því að synda þessa vegalengd undir 2 mínútum og 10 sekúndum.

Í boðsundi tók Einar Margeir þátt í 4×100 metra fjórsundi í blandaðri sveit sem setti Íslandsmet og endaði í 19. sæti. Einar Margeir synti bringusundið á 57,95 sek, sem er næst besti tími sem Íslendingur hefur náð í bringusundi í boðsundi.

Heimsmeistaramótið var að sjálfsögðu með keppendur frá flestum heimsálfum og alls voru sett 30 heimsmet. Keppnislaugin er talin vera á meðal þeirra bestu í heiminum og öll umgjörð mótsins var eins og best var á kosið.