Aldís Ylfa tekur við U-17 og U-16 ára landsliðum kvenna hjá KSÍ

Skagakonan Aldís Ylfa Heimisdóttir er nýr þjálfari U17 og U16 ára landsliðs kvenna hjá Knattspyrnusambandi Íslands. Greint var frá ráðningu Aldísar á heimasíðu KSÍ í dag.

Landsliðsþjálfarar hjá KSÍ með bakgrunn frá ÍA eru nú alls þrír. Þórður Þ. Þórðarson þjálfar landslið U19/U18 kvenna, og Lúðvík Gunnarsson er þjálfari landsliða U17/U16 karla.

Þess má einnig geta að Ásmundur Haraldsson, sem er búsettur á Akranesi, er aðstoðarþjálfari A-landsliðs kvenna, og hjá sambandinu starfa Skagamennirnir Guðlaugur Gunnarsson á innanlandssviði og Óskar Örn Guðbrandsson starfar á samskiptadeild sambandsins.

Í frétt KSÍ kemur eftirfarandi fram.

Aldís, sem er með KSÍ A gráðu í þjálfun og meistaragráðu í verkefnastjórnun, var aðstoðarþjálfari í yngri landsliðum kvenna árin 2021-2023 (U15-U16-U17) ásamt því að starfa við Hæfileikamótun KSÍ. Þá starfaði hún sem þjálfari hjá ÍA í rúman áratug þar sem hún þjálfaði m.a. 2. flokk kvenna ásamt því að halda utan um kvennastarfið hjá KFÍA. Að auki var hún aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna hjá ÍA í 3 ár.

Sem leikmaður lék Aldís 72 leiki með meistaraflokki ÍA og skoraði 8 mörk, og einnig hefur hún leikið tvisvar með U19 landsliði Íslands og skorað eitt mark.