„Ástæðan fyrir því að ég er að hætta sem framkvæmdastjóri Dvalarheimilisins Höfða er að ég er að taka við nýrri stöðu framkvæmdastjóra fjármála- og rekstrarsviðs á Eir, Skjóli og Hömrum sem rekur þrjú hjúkrunarheimili, þrjár dagdvalir, Eir endurhæfingu og Eir öryggisíbúðir,“ segir Kjartan Kjartansson við Skagafréttir.
Starf framkvæmdastjóra Dvalarheimilisins Höfða var auglýst laust til umsóknar nýverið en Kjartan hefur gegnt því starfi undanfarin 12 ár. Hann segir að miklar breytingar hafi einkennt tímabilið
„Það sem stendur upp úr að búið er að breyta heimilinu úr blöndu af dvalar- og hjúkrunarrýmum yfir í hreint hjúkrunarheimili og með því styrkt fjárhagsgrundvöll heimilisins og jafnframt svarað kalli um fleiri hjúkrunarrými. Við erum líka búin að fara í gegnum miklar endurbætur á húsnæði Höfða sem nú sér fyrir endan á í bili.
Siðastliðið haust var skrifað undir viljayfirlýsingu við heilbrigðisráðherra um stækkun á Höfða úr 75 rýma heimili upp í 99 rýma – og eru því fjölmörg verkefni á dagskrá á Dvalarheimiiinu Höfða á næstu misserum.
„Að hafa starfað sem framkvæmdastjóri Höfða hefur verið krefjandi en jafnframt mjög gefandi enda hef ég starfað þar með frábæru starfsfólki sem ég á án efa eftir að sakna. Ég tel hinsvegar að stjórnendur eigi ekki að vera of lengi í sama starfi og því hef ég kosið að breyta til og hlakka til að takast á við ný verkefni og nýjar áskoranir,“ segir Kjartan Kjartansson við skagafrettir.is.