Strákarnir í körfunni á sigurbraut – fimmti sigurinn í röð

Karlalið ÍA í körfuknattleik heldur sigurgöngu sinni áfram í næst efstu deild Íslandsmótsins. Í gær sigraði ÍA lið KFG úr Garðabæ 114-84.

Þetta var fimmti sigurleikur ÍA í röð og er liðið í þriðja sæti deildarinnar með 20 stig að loknum 13 umferðum. Þar fyrir ofan eru Ármann og Hamar úr Hveragerði með 22 stig eftir 14 umferðir.

Myndin tekin af fésbókarsíðu Körfuknattleiksfélagsins. 

Efsta liðið að loknum 22 umferðum fer beint upp í efstu deild, Subway- deildina, en liðin í sætum 2-9 leika í úrslitakeppni um eitt laust sæti til viðbótar.

Sigur ÍA í gær var öruggur. Stigahæsti leikmaður liðsins var Brasilíumaðurinn Victor Bafutto en hann skoraði 19 stig og tók 11 fráköst.

Allir leikmenn ÍA fengu tækifæri í þessum leik og stigaskor ÍA dreifðist á marga leikmenn. Aron Elva Dagsson skoraði 14 stig, tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Srdan Stojanovic hafði hægt um sig í stigaskoruninni en hann gaf 8 stoðsendingar, tók 6 fráköst og skoraði 9 stig á aðeins 18 mínútum af alls 40.