Þróunarverkefnið „Saman á skaga“ fær ekki fjármagn

Ekki er gert ráð fyrir fjármagni í fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir þróunarverkefnið „Saman á skaga“ – sem hefur verið í gangi frá árinu 2019.

Þar hefur áherslan verið að efla félaglega virkni, draga úr einangrun hjá fullorðnum fötluðum og veita þeim fjölbreyttari tækifæri til tómstundaiðkunar.

Verkefnið var í fyrstu fjármagnað með styrkjum en ríkið og Akraneskaupstaður hafa greitt fyrir vinnu verktaka undanfarin ár. Í fundargerð velferðar – og mannréttindaráðs Akraness frá árinu 2022 kemur fram að gert var ráð fyrir að verkefnið kostaði 3 milljónir kr. á árinu 2023.

Bókað var í Velferðar- og mannréttindaráði árið 2023 að gera þyrfti ráð fyrir fjármagni fyrir verkefnið á árinu 2024 í fjárhagsáætlun. Að sama skapi var óformlega rætt um að næstu ár yrðu með svipuðum hætti.

Í nýjustu fundargerð velfarðar og mannréttindaráðs kemur fram að í aðdraganda fjárhagsáætlunar 2025 var gert ráð fyrir fjármagni til að halda verkefninu áfram og beiðni þess efnis sett inn í fjárhagsáætlunargerð.

Sú hækkun skilaði sér ekki inn á viðeigandi lykil.
Velferðar- og mannréttindaráð staðfestir að ekki fékkst fjármagn í verkefnið í fjárhagsáætlunargerð fyrir 2025. Ráðið leggur áherslu á að frístundastarfi fatlaðs fólks verði fundinn viðeigandi vettvangur innan bæjarfélagsins.