Akraneskaupstaður var á dögunum með kynningu á bæjarfélaginu sem mögulegan áfangastað fyrir skemmtiferðaskip. Forsvarsmenn kaupstaðarins fengu fulltrúa frá hagsmunasamtökunum Cruise Iceland í heimsókn.
Tilefni fundarins er meðal annars að árið 2025 lýkur framkvæmdum við lengingu á hafnarbakka í Akraneshöfn þannig að stærri skip geta þá lagst við bryggju.
![](https://skagafrettir.is/wp-content/uploads/2025/02/20536076_10211162571154328_1163042759_o-EDIT-1132x670.jpg)
Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri, kynnti Akranes og möguleika bæjarins sem áfangastað, og í kjölfarið var Margrét Björk Björnsdóttir, fagstjóri Áfangastaða- og Markaðsstofu Vesturlands, með kynningu á vinnu sem farið hefur verið í til að stuðla að og styðja við framþróun, gæði og aukinn ávinning af ferðamálum á Vesturlandi með áherslu á móttöku skemmtiferðaskipa og skipafarþega.
Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Akraneskaupstaðar.
Cruise Iceland eru hagsmunasamtök íslenskra hafna, ferðaþjónustuaðila, umboðsmanna skipafélaga og annarra sem tengjast móttöku skemmtiferðaskipa á Íslandi. Samtökin hafa það markmið að efla samstarf og upplýsingagjöf um skemmtiferðaskipa áfangastaðinn Ísland, bæði til innlendra og erlendra hagsmunaaðila.
Meginhlutverk Cruise Iceland er að stuðla að sjálfbærum vexti greinarinnar með virðisaukningu fyrir alla hagsmunaaðila og gæta hagsmuna hennar. Samtökin hafa góða yfirsýn yfir áskoranir og tækifæri í þjónustu við skemmtiferðaskip og farþega þeirra og því verðmætt að geta leitað í reynslu þeirra. Það var ánægjulegt hve góð þátttaka og mæting var frá Cruise Iceland, hversu mikill áhugi er á Akranesi og vilji til að miðla góðum upplýsingum og ráðgjöf.