Sveinbjörn Hlöðversson er Skagamaður ársins 2024.

Kjörinu var lýst á Þorrablóti Skagamanna sem fram fór í gær – 16. febrúar 2025. Þetta er í 15. sinn sem þessi viðurkenning er veitt.

Sveinbjörn hefur á undanförnum árum lagt mikla sjálfboðavinnu til samfélagsins í gegnum starf sitt hjá Knattspyrnufélaginu Kára. Félagið er með kraftmikið starf í samvinnu við Knattspyrnufélag ÍA – og hjá Kára fá leikmenn tækifæri til þess að stunda íþróttina á sínum forsendum.

Sveinbjörn fékk málverk eftir Bjarna Þór Bjarnason að gjöf og veglegan blómvönd.

Valgarður Lyngdal Jónsson, forseti bæjarstjórnar, samdi þessa vísu um Sveinbjörn en Líf Lárusdóttir formaður bæjarráðs flutti vísuna þegar viðurkenningin var afhent í gær. 

Ungur var hann öllum sneggri,
einatt klár og flestum gleggri,
við að skjóta og skora mörk.

Best það sást að bráðum myndi
boltinn verða hans líf og yndi,
leit þess mark á lífsins örk.

Fræknu liði frama tryggði,
frábært starfið upp hann byggði,
ekkert dró hann undan þar.

Seldi miða, sá um kaffið,
sjálfur var hann gjörvallt staffið,
á atorku var ekki spar.

Káramenn hér kappi fylgdu,
klárir upp um deild þeir sigldu,
Andstæðinga mörðu í mél.

Formaðurinn fagnar kátur,
fannst þar bros og gleðihlátur.
Fór svo heim og setti í vél.

Eftirtaldir hafa fengið þessa viðurkenningu.

2024: Sveinbjörn Hlöðversson

2023: Jón Gunnlaugsson og Stefán Jónsson.

2022: Tinna Ósk Grímarsdóttir

2021: Starfsfólk leik – grunn – og framhaldsskóla og frístundastarfi.

2020: Heilbrigðisstarfsfólk HVE.

2019: Andrea Þ. Björnsdóttir.

2018: Bjarni Þór Bjarnason.

2017: Sigurður Elvar Þórólfsson.

2016: Dýrfinna Torfadóttir.

2015: Erna Guðnadóttir og Einar J. Ólafsson.

2014: Steinunn Sigurðardóttir.

2013: Ísólfur Haraldsson.

2012: Hilmar Sigvaldason.

2011: Haraldur Sturlaugsson.

2010: Þórður Guðnason.