Skagamaðurinn Arnór Sigurðsson er á förum til sænska knattspyrnuliðsins Malmö samkvæmt frétt á fotbolti.net í dag. Arnór hefur verið á mála hjá enska B-deildarliðinu Blackburn en samningi hans var rift í byrjun þessa árs. 

Malmö er ríkjandi meistari í sænsku úrvalsdeildinni og er gert ráð fyrir að hinn 25 ára Skagamaður geri þriggja ára samning við félagið. Arnór lék með Norrköping á árunum 2017-2018.

Hann var keyptur til CSKA í Moskvu í Rússlandi árið 2018 og skrifaði þar undir samning til ársins 2023.

Arnór var lánaður frá rússneska liðinu til Venezia á Ítalíu árið 2021 og hann var hjá Norrköping í Svíþjóð á lánssamningi 2022-2023.   

Árið 2023 fór hann á lánssamningi til Blackburn og gerði hann síðan tveggja ára samning við enska félagið en þeim samningi var rift í upphafi þessa árs.