Karlalið ÍA vann sinn fyrsta leik í A-riðli Lengjubikarkeppni KSÍ í gær með 3-0 sigri gegn liði Grindavíkur.
Þetta var þriðji leikur ÍA í þessari keppni en ÍA hafði gert jafntefli gegn Val og Vestra í fyrstu tveimur leikjunum.

Hinrik Harðarson skoraði fyrsta mark ÍA á 25. mínútu, Gabríel Snær Gunnarsson og Jón Gísli Eyland Gíslason bættu við mörkum á lokakafla leiksins.
Leikurinn fór fram í Akraneshöllinni og fjölmargir áhorfendur mættu á leikinn. Flestir af lykilleikmönnum ÍA voru með í þessum leik – en Viktor Jónsson og Steinar Þorteinsson voru ekki í leikmannahópnum að þessu sinni. Ómar Björn Stefánsson, sem kom til ÍA frá Fylki í lok síðasta árs, var í byrjunarliðinu – en hann skrifaði undir þriggja ára samning við ÍA í október s.l.
Þrír leikmenn úr röðum ÍA eru í herbúðum Grindavík á þessu tímabili á lánssamningi. Breki Þór Hermannsson, Árni Salvar Heimisson og Ármann Finnbogason – en þeir voru allir í byrjunarliði Grindavíkur í gær.
Næsti leikur ÍA er gegn Fjölni næsta miðvikudag og fer leikurinn fram í Egilshöll.



