Skagamenn stigu stórt skref í átt að sæti í efstu deild Íslandsmótsins í körfuknattleik í kvöld með sterkum 99:80 sigri gegn liði Breiðabliks á útivelli. Þetta var tíundi sigurleikur ÍA í röð sem er stórkostlegur árangur.
Lokakafli ÍA í leiknum gegn Blikum í kvöld var frábær þar sem að liðið skoraði 27 stig gegn 9.

Kristófer Már Gíslason var stigahæstur í liði ÍA með 22 stig, Kinyon Hodges skoraði 20 stig, gaf 9 stoðsendingar og stal boltanum 5 sinnum af andstæðingunum.
Viktor Bafutto tók 12 fráköst og skoraði 10 stig en hann er frákastahæsti leikmaður deildarinnar.
Tölfræðin í heild sinni er hér:
ÍA er í efsta sæti þegar fjórar umferðir eru eftir.
Skagamenn eru því í dauðafæri að tryggja sér sæti í efstu deild – en það lið sem endar í efsta sæti eftir deildarkeppnina fer beint upp í Bónus-deildina á næsta tímabii, en liðin í sætum 2-9 leika í úrslitakeppni um eitt laust sæti til viðbótar í efstu deild á næsta tímabili.
ÍA lék í fyrsta sinn í efstu deild á Íslandsmótinu í körfuknattleik veturinn 1992-1993. ÍA lék í úrvalsdeild næstu átta tímabil en liðið féll úr efstu deild vorið 2000.
Besti árangur ÍA í efstu deild er þriðja sætið í deildarkeppninni en ÍA hefur leikið tvívegis í undanúrslitum Íslandsmótsins í efstu deild. Vorið 1993 komst ÍA í undanúrslit á sínu fyrsta ári í efstu deild og vorið 1998 lék ÍA í undanúrslitum á ný.
Árið 1996 lék ÍA til úrslita gegn Haukum um Bikarmeistaratitilinn. Það var í fyrsta sinn sem ÍA komst í úrslit bikarkeppninnar en Haukar fögnuðu sigri í þessum úrslitaleik.
Skagamenn eiga eftir að leika fjóra leiki í deildinni og Hamarsmenn koma í heimsókn á Skagann 27. febrúar.
Leikir ÍA sem eru framundan:
- 27. febrúar: ÍA – Hamar – Vesturgata 19:15
- 7. mars 19:15 Fjölnir – ÍA Dalhús 19:15
- 14. mars: ÍA – Ármann – Vesturgata 19.15
- 17. mars: Selfoss – ÍA – Vallaskóli 19:15


Hvers vegna ættir þú að styrkja Skagafréttir?
- Bæjarfréttamiðlar eru nauðsynlegir – takk fyrir að sýna því verkefni áhuga.
- Skagafréttir fóru í loftið 10. nóvember árið 2016.
- Frá upphafi hefur jákvæður fréttatónn verið rauði þráðurinn í fréttum.
- Bæjarfréttamiðlar eiga undir högg að sækja – og ekki sjálfsagt að fréttir úr nærsamfélaginu verði aðgengilegar án stuðnings lesenda.
- Hefur þú tök á því að taka þátt í uppbyggingu á bæjarfréttamiðli sem er opin fyrir alla?