„Mér leið vel á lokakafla leiksins – því ég hafði trú á strákunum. Þetta var hörkuleikur og við erum núna einum sigurleik frá því að tryggja ÍA sæti í efstu deild á ný,“ sagði Óskar Þór Þorsteinsson þjálfari karlaliðs ÍA í körfuknattleik í kvöld eftir 104-103 sigur liðsins gegn Hamri úr Hveragerði.

Úrslit leiksins réðust í framlengingu að viðstöddum um 1000 áhorfendum sem troðfylltu íþróttahúsið við Vesturgötu.

Með sigrinum er ÍA í dauðafæri að tryggja sæti í efstu deild, Bónus-deildinni, en það eru þrír leikir eftir í deildinni og efsta liðið að lokinni deildarkeppninni fer beint upp. Liðin í sætum 2-9 leika í úrslitakeppni um eitt laust sæti til viðbótar. 

ÍA er í efsta sæti deildarinnar með 32 stig eftir 19 umferðir en þar fyrir neðan eru Sindri með 26 stig eftir 18 leiki og Hamar með 26 stig eftir 19 leiki. Þetta var ellefti sigurleikur ÍA í röð í deildinni. 

Leikir ÍA sem eftir eru í deildinni: 

  • 7. mars 19:15 Fjölnir – ÍA Dalhús 19:15
  • 14. mars: ÍA – Ármann – Vesturgata 19.15
  • 17. mars: Selfoss – ÍA – Vallaskóli 19:15

Myndasyrpa frá leiknum frá skagafrettir.is er hér. 

Leikurinn var gríðarlega spennandi og skemmtilegur á að horfa. Skagamenn náðu að jafna metin í venjulegum leiktíma með þriggja stiga körfu sem Kristófer Már Gíslason skoraði þegar leiktíminn rann út. Staðan var 90-90 og leikurinn var framlengdur. ÍA skoraði 14 stig gegn 13 í framlengingunni og tryggði sér 104-103 sigur.