Karlalið ÍA í knattspyrnu hefur á undanförnum mánuðum samið við unga og efnilega leikmenn sen hafa leikið með öðrum félögum. Töluverð breyting er á leikmannahópi ÍA fyrir næsta tímabil, fjölmargir leikmenn hafa verið lánaðir til annarra félaga – og hinn þaulreyndi Arnór Smárason lagði skóna á hilluna s.l. haust.

Tveir markverðir hafa samið við félagið, Kristján Hjörvar Sigurkarlsson (fæddur 2005) og Jón Sölvi Símonarson (fæddur 2007) en sá síðarnefndi kemur frá Breiðablik á lánssamningi. Kristján Hjörvar lék með liði Kára á síðustu leiktíð en hann á einn leik í efstu deild með Val þar sem hann lék áður. Kristján og Jón Sölvi eru samningsbundnir út þetta tímabil.

Framherjinn Ómar Björn Stefánsson, sem er fæddur árið 2004, gerði þriggja ára samning við ÍA s.l. haust – en hann kemur frá Fylki.

Varnarmaðurinn, Baldvin Þór Berndsen, sem er fæddur árið 2004, kom frá Fjölni í Reykjavík nýverið, og gerði hann einnig samning til þriggja ára.

ÍA hefur einnig fengið í sínar raðir þrjá unga og efnilega leikmenn sem eru allir fæddir árið 2009.

Jón Viktor Hauksson, gerði nýverið samning við ÍA, en hann kemur frá Haukum í Hafnarfirði og hefur hann leikið með U-15 ára landsliði Íslands. Hann hefur leikið mest sem miðjumaður.

Brynjar Óðinn Atlason kemur frá Hamri í Hveragerði, en hann hefur leikið tæplega 30 leiki með meistaraflokki félagsins sem hægri bakvörður.

Daníel Michal Grzegorzsson hefur samið við ÍA en hann kemur frá Knattspyrnufélagi Austurlands. Hann hefur leikið með U-15 ára landsliði Íslands.