„Meira landbrot, skemmdir á mannvirkjum, búsetuógn af völdum aukinna sjávarflóða og mikil fjárútlát blasa við okkur. Váin eykst með hverjum áratugi með harðnandi sjávarrofi,“ skrifar Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur í pistli á fésbókarsíðu sinni.
Tilefnið eru miklar hamfarir á SV-horni landsins eftir ágang sjávar nýverið.

Miklar skemmdir voru víða á Akranesi, þá sérstaklega við Ægisbraut, Vesturgötu og á Breiðarsvæðinu. Ari Trausti telur að umræða, fræðsla og undirbúningur fyrir sjávarflóð sé ekki mikil og brýnt sé að safna fyrir dýrum framtíðarviðbrögðum.
Pistill Ara er í heild sinni hér fyrir neðan:
Hækkun sjávarborðs er alkunn. Á heimsvísu er talan fyrir árin 1993 til 2024 um 10,4 cm en 21 cm frá 1880. Um næstu aldamót gæti sjávarstaðan verið 0,7 til 100 cm hærri en nú. Hraðinn hefur undanfarið hækkað í 5-6 mm á ári. Megin ástæðurnar eru vel þekktar: Bráðnun jökulíss og sífrera og varmaútþensla hafanna. Hér á landi er hækkun í sjó ólík eftir landshlutum vegna þess að land rís suðaustanlands en suðvestanlands og víðar er land í jafnvægi eða sígur. Sigið er hraðast á Reykjanessakaga (frá 2-3 mm/ár austast í 9 mm/ár vestast), vegna rekhreyfinga og upphleðslu gosefna á löngum tíma. Við næstu aldamót gæti sjávarstaða við Ísland hafa hækkað mest um 1,2 m þar sem land sígur en verið orðið 1,5 m lægri þar sem land rís hraðast, í ljósi núverandi loftslags- og umhverfisbreytinga.
Meira landbrot, skemmdir á mannvirkjum, búsetuógn af völdum aukinna sjávarflóða og mikil fjárútlát blasa við okkur. Váin eykst með hverjum áratugi með harðnandi sjávarrofi.
Aðlögun og misflóknar varnir eru þekktar, hér sem víða erlendis. Of lítið hefur farið fyrir umræðu, fræðslu og hvers kyns undirbúningi undir sjávarflóð. Brýnt að að safna fé fyrir dýrum framtíðarviðbrögðum strax í dag. Ennfremur verður að auka greiðslugetu Hamfaratrygginga jafnt og þétt.