
Sveitarstjórar og bæjarstjórar af Vesturlandi ásamt framkvæmdastjóra og formanni Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi funduðu í dag með forsætisráðherra og innviðaráðerra í Stjórnarráðinu.
Tilefni fundarins var að fylgja eftir bréfi sem framangreindur hópur sendi oddvitum ríkisstjórnarinnar til að vekja athygli á neyðarástandi vegamála á Vesturlandi.
Haraldur Benediktsson bæjarstjóri Akraness skrifaði eftirfarandi pistil í tilefni fundarins.
„28 júní 2021, kom út skýrsla; Áhrif loftslagsbreytinga og á samgöngur og forsendur aðlögunar.
Það er sláandi hvernig þessi ágæta skýrsla ávarpar viðfangsefni okkar, undanfarnar vikur. Hvort sem er bikblæðingar eða sjávarflóð.
Skýrslan dregur saman helstu þætti loftslagsbreytinga sem ríki og sveitafélög verða að vinna sameiginlega að. Hér er tekin stutt samantekt úr efni skýrslunnar:
- Hlýnun sem hefur margvísleg áhrif, ma. regni í stað snjókomu, meiri hálkuvarnir í stað moksturs, auknar blæðingar í slitlagi, meiri gróður og hugsanlega breytt ferðamynstur. Bráðnun jökla, breytt vatnafar og vatnsmagn – sem hefur áhrif á staðsetningu og hönnun brúa og ræsa. Bráðnun sífrera með á hættu á aurflóðum og skriðuföllum.
- Úrkoma og veðurkerfi, þmt aukin úrkomuákefð og veðuröfgar, úrhelli með hættu á flóðum á vegum, skemmdum á brúm og ræsum, skriðuföllum, aur og snjóflóðum og álag á fráveitukerfi, sérstaklega í þéttbýli. Tilfærsla veðurkerfa hefur á áhrif á ríkjandi vindáttir. Vinstyrk, úrkomumynstur og veður – td má gera ráð fyrir tíðara eldingaveðri.
- Sjávarborðshækkun veldur aukinni hættu á sjávarflóðum og meira strandrofi vaxandi þörf fyrir sjóvarnir, hækkun og styrkingu mannvirkja á lágsvæðum auk þess að endurmeta þarf hönnunarreglur með jöfnu millibili.
Þegar þessi texti er lesinn, má sjá þar mörg að „viðfangsefnum“ okkar undnafarið – eða öllu heldur áföllum sem hafa haft áhrif á líf okkar undanfarna daga.
Ég leyfi mér að kalla eftir vettvangi ríkis og sveitarfélaga um sameiginlega sýn og sameiginlegar áætlanir um hvernig við ætlum að standa saman að því bregðast við þeim breytingum – sem sannarlega eru að verða ( kannski er verið að vinna það einhverstaðar og ég veit ekki af því).
Drögum þessa góðu skýrslu fram og vinnum með niðurstöður hennar.
Það er í það minnsta verkefni fyrir okkur innan Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi að tengja þessa ágætu skýrslu og niðurstöður hennar við uppfærða innviðaáætlun SSV. Allt þetta tengist með beinum hætti að verkefnum okkar og áherslum, hvort sem er á vettvangi skipulagsmála, þróun byggðar og uppbyggingu varnarmannvirkja, vega eða annara þátta sem þarf að hafa trausta fyrir nútíma samfélag.