Á fundi Skipulags – og umhverfisráðs Akraness þann 3. mars s.l. var greint frá því að Vegagerðin væri að undirbúa endurbætur á sjóvarnargörðum á Akranesi. Eins og komið hefur fram áður varð mikið tjón víðsvegar á Akranesi vegna hárrar sjávarstöðu samhliða aftakaveðri.

Í fundargerð ráðsins kemur fram að eftir að veðrinu slotaði fóru starfsmenn Veitna, slökkviliðs og lögreglu á vettvangi ásamt félögum frá björgunarfélaginu og starfsmönnum Akraneskaupstaðar. Unnið er við að ná utan um tjónið og skipuleggja hreinsunarstarf. Haft hefur verið samband við Vegagerðina varðandi áformaðar endurbætur á sjóvarnargörðum og ætla þeir að bregðast strax við með undirbúning þeirra. Þar kemur einnig fram að sviðstjóra sé falið að fylgja því eftir við Vegagerðina að þeim verði flýtt.