Skagamaðurinn Hákon Arnar Haraldsson er varafyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu. Hákon Arnar er í stóru hlutverki hjá franska stórliðinu Lille og hefur hann leikið vel í deildinni og Meistaradeildinni.

Hann hefur skorað fjögur mörk en Lille er í 5. sæti deildarinnar en liðið féll úr leik í 16-liða úrslitum í Meistaradeildinni.

Í frétt á visir.is kemur fram að Hákon Arnar er á meðal verðmætustu leikmanna frönsku deildarinnar.

Svissneska fyrirtækið CIES heldur úti upplýsingum slíka hluti og telur fyrirtækið að Hákon Arnar gæti verið seldur á tæplega 7 milljarða ísl. kr. eða 46 milljónir Evra.

Hákon Arnar fór til Lille frá FCK í Kaupmannahöfn sumarið 2023. Franska félagið greiddi um 15 milljónir Evra eða sem nemur 2,3 milljörðum kr.