Bæjarráð Akraness hefur samþykkt að gerð verði úttekt á rekstri og fjárhag bæjarfélagsins. Rekstur Akraneskaupstaður er krefjandi verkefni, tekjur hafa lækkað og útgjöld aukist. Fyrirhugaðar breytingar útreikningi á greiðslum úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga mun einnig skerða tekjur Akraneskaupstaðar.

Í fundargerð bæjarráðs kemur fram að á næstu misserum verði rekstrarkostnaður lækkaður, útgjöldum frestað, og fjárfestinga – og framkvæmdaáætlun fram til ársins 2028 verður endurskoðuð. Markmiðið er að tryggja áfram fjárhagslega sjálfbærni Akraneskaupstaðar til skemmri og lengri tíma.

Þar kemur einnig fram að stefnt verði að eftirfarandi atriðum í A-hluta.

  • Framlegðarhlutfall rekstrar verði 7,5% á yfirstandandi ári (í fjárhagsáætlun ársins 2025 er það áætlað 5,3%).
  • Veltufé frá rekstri verði 11,5% á yfirstandandi ári (í fjárhagsáætlun ársins 2025 er það áætlað 9,9%).
  • Launahlutfall verði innan 60% á yfirstandandi ári (í fjárhagsáætlun ársins 2025 er það áætlað 59,3% áður en nýir kjarasamningar eru endurreiknaðir).
  • Skuldaviðmið til lengri tíma (2028) verði 80% (í fjárhagsáætlun ársins 2025 er það áætlað 65,3%).
  • Þriggja ára jöfnuður verði áfram jákvæður.