Bæjarbúar á Akranesi geta nú pantað matvöru í gegnum Snjallverslun Krónunnar og fengið sent upp að dyrum. Krónan er fyrsta verslunin sem býður íbúum á Akranesi upp á slíka þjónustu. Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Allar pantanir verða teknar saman og keyrðar út frá verslun Krónunnar á Dalbraut. Sigurður Ólafur Oddsson, verslunarstjóri Krónunnar á Akranesi segir að mikil eftirspurn hafi verið eftir þjónustunni og sé því afar ánægjulegt að geta svarað kallinu.

Guðrún, framkvæmdastjóri Krónunnar og Sigurður, verslunarstjóri Krónunnar á Akranesi skjótast með sendingar til Skagamanna á rafmagnsbíl fyrirtækisins. Mynd: Rúnar Kristmannsson

„Við í Krónunni á Akranesi getum nú loksins boðið upp á heimsendingar. Íbúar á svæðinu hafa verið duglegir að biðja okkur um að opna fyrir þessa þjónustu og gerum við því ráð fyrir að þessu verði vel tekið af Skagamönnum og síðar Borgnesingum og nærsveitungum ef vel gengur. Matarinnkaupin hafa því sjaldan verið auðveldari fyrir íbúa, stofnanir og fyrirtæki á svæðinu,” segir Sigurður.

Krónan hefur síðastliðin ár unnið að því að auka framboð Snjallverslunar á landsbyggðinni og þjónustar matvöruverslunin nú töluvert svæði um landið, meðal annars á Norðurlandi eystra, Austfjörðum, Suðurlandi, Suðurnesjum og nú Vesturlandi. Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar segir ánægjulegt að geta kynnt þjónustuna víðar en á höfuðborgarsvæðinu og að þetta gjörbreyti leiknum fyrir landsbyggðina.

„Verslunarvenjur okkar hafa breyst hratt á undanförnum árum, ekki síst með tilkomu snjallra lausna. Með Snjallverslun Krónunnar fá rúmlega 8 þúsund íbúar Akraness tækifæri til að fá matarinnkaupin send heim sem sparar tíma og minnkar bílaumferð og útblástur. Við bjóðum Skagamenn hjartanlega velkomna í hóp viðskiptavina Snjallverslunarinnar og hlökkum til að ná til fleiri nágranna ef vel gengur hér á Akranesi. Þetta er mikilvægt því við viljum einfalda líf viðskiptavina og gefa sem flestum kost á að nálgast fjölbreytt vöruúrval Krónunnar á sama lága verðinu um allt land,“ segir Guðrún.

Viðskiptavinir fá fría heimsendingu ef pantað er fyrir 18 þúsund krónur eða meira í Snjallverslun.

Hægt er að nálgast Snjallverslun Krónunnar í appi Krónunnar og á kronan.is.