World Class mun taka við rekstri líkamsræktarstöðvar í íþróttahúsinu við Jaðarsbakka – „Bragganum“. Akraneskaupstaður mun ganga til viðræðna við Laugar ehf. um reksturinn – en valnefnd á vegum Skóla – og frístundaráðs telur að fyrirtækið hafi skilað inn hagstæðasta tilboðinu í reksturinn. Tvö tilboð bárust í reksturinn og hefur bæjarráð samþykkt tillögu valnefndarinnar.
Í fundargerð Bæjarráðs kemur eftirfarandi fram:

Tveir aðilar skiluðu inn tilboðum þ.e. Laugar ehf. (World Class) og óstofnað hlutafélag (Sporthúsið ehf).
Niðurstaða valnefndar er að Laugar ehf. séu með hagstæðasta tilboðið miðað við forsendur fyrirliggjandi tilboðsgagna og leggur til við skóla- og frístundaráð að hefja viðræður um rekstur á líkamsrækt við félagið.
Skóla- og frístundaráð tekur undir tillögu valnefndar um að hafnar verði viðræður við Laugar ehf.( World Class) um rekstur á líkamsrækt á Jaðarsbökkum og vísar málinu til umfjöllunar hjá bæjarráði. Bæjarráð samþykkir tillögu valnefndar og skóla- og frístundaráðs um að farið verði í formlegar viðræður við Laugar ehf. (World Class).
Samþykkt 3:0
- Skagafréttir hafa á undanförnum átta árum beint kastljósinu að mannlífinu á Akranesi og flutt mörg þúsund fréttir af Skagamönnum nær og fjær.
- Bæjarfréttamiðill sem er opinn fyrir alla er ekki sjálfsagður hlutur.
- Hefur þú tök á því að styðja við bakið á fréttamiðlinum okkar?