Það er alltaf nóg um að vera hjá Fimleikafélagi ÍA en félagið heldur Íslandsmótið í hópfimleikum dagana 10.13. apríl. Í tilkynningu sem félagið sendi frá sér kemur eftirfarandi fram.

Keppendur frá félaginu stóðu sig vel á Bikarmótinu í hópfimleikum sem fram fór nýverið. Meistaraflokkur, 1. 2. og 3 flokkur félagsins tóku þátt. Meistaraflokkur og 3. flokkur stóðu uppi sem bikarmeistarar í stökkfimi í sínum flokkum.

Um s.l. helgi hélt félagið mót í Parkour og er þetta í annað sinn sem slíkt mót er haldið á Akranesi. ,,Parkour Chase Tag“ var nafnið á mótinu en keppendur voru alls 120. Komu þeir frá eftirfarandi félögum ÍA, Gerplu, Ármann, Fylki, Björk, Parkour Skúrnum og Aftureldingu.

Parkour er upprunnið í Frakklandi og er heitið komið af franska orðinu „parcours“ sem merkir leið. Í stuttu máli snýst parkour um að komast á milli staða eins fljótt og hægt er, nota hindranir og skemmta sér í leiðinni. Parkour má stunda hvar sem er og algengast er að leikvöllurinn sé borgarumhverfi, svo sem veggir, þök og handrið sem notuð eru til að stökkva fram af, taka kollhnís og gera önnur brögð í loftinu.

  • Skagafréttir hafa á undanförnum átta árum beint kastljósinu að mannlífinu á Akranesi og flutt mörg þúsund fréttir af Skagamönnum nær og fjær.
  • Bæjarfréttamiðill sem er opinn fyrir alla er ekki sjálfsagður hlutur.
  • Hefur þú tök á því að styðja við bakið á fréttamiðlinum okkar?