Fulltrúar Sementsverksmiðjunnar ehf. mættu nýverið á fund bæjarráðs til að fylgja eftir erindi sínu frá 30. september 2024 varðandi möguleikana á áframhaldandi rekstri á núverandi stað. 

Þorsteinn Víglundsson og Gunnar Sigurðsson sátu fundinn. 

Sementsverksmiðjan er staðsett að Mánabraut 20, Akranesi, þar sem sementið sem flutt er til landsins er geymt, pakkað og afhent til viðskiptavina á höfuðborgarsvæði, Vestur- og Suðurlandi.

Á Akranesi eru fjórir sementstankar sem taka um 4000 tonn af sementi hver. 

Sementsverksmiðjan og Akraneskaupstaður gerðu árið 2013 samning sem tryggir að verksmiðjan geti haft þessa fjóra sementstanka til umráða fram til 1. ágúst 2028.

Um var að ræða samning til 15 ára. Að þeim tíma liðnum fær Akraneskaupstaður sementstankana afhenta og gert var ráð fyrir að starfssemi Sementsverksmiðjunnar yrði hætt á árinu 2028.

Bæjarráð hefur ákveðið að bjóða Þorsteini og Gunnari á fund þann 8. apríl n.k. með öllum bæjarfulltrúum Akraneskaupstaðar. Bæjarráð hefur einnig vísað erindinu til efnislegrar umfjöllunar í skipulags- og umhverfisráði sem fram fer á reglulegum fundi ráðsins eftir 8. apríl nk.

Hér fyrir neðan er myndasafn frá niðurrifi á byggingum Sementsverksmiðjunnar. 

  • Skagafréttir hafa á undanförnum átta árum beint kastljósinu að mannlífinu á Akranesi og flutt mörg þúsund fréttir af Skagamönnum nær og fjær.
  • Bæjarfréttamiðill sem er opinn fyrir alla er ekki sjálfsagður hlutur.
  • Hefur þú tök á því að styðja við bakið á fréttamiðlinum okkar?