Golfvinirnir Þórólfur Ævar Sigurðsson og Guðmundur Sigurjónsson brosa breitt þessa dagana. Þeir hafa báðir farið holu í höggi á þessu ári í Bönkerinn – Innigolf á Akranesi.
Ævar, sem er til vinstri á myndinni, sló draumahöggið þann 17. febrúar s.l. á 11. braut á Marcella vellinum og hann sagði engum frá afrekinu fyrr en í dag. Árangurinn var staðfestur með því að rýna í gögn frá þessum degi í Trackman forritinu.

Guðmundur Sigurjónsson sló boltann beint í holu á 7. braut á Cabot Links vellinum í dag, 2. apríl 2025, í sinni fyrstu heimsókn í innigolfaðstöðuna.
Þetta er í fyrsta sinn sem þeir félagar fara holu í höggi á löngum golfferli – og nú þurfa þeir bara að endurtaka leikinn í útigolfinu í sumar á Garðavelli þar sem þeir leika saman flesta daga.
Eins og áður segir eru þeir félagar þaulreyndir kylfingar og hafa verið félagsmenn í Leyni á Akranesi í marga áratugi. Ævar er 79 ára, fæddur 1946, og hefur hann verið félagsmaður frá stofnun klúbbsins árið 1965 eða í 60 ár. Guðmundur er fæddur árið 1939 og er því 86 ára. Hann hefur verið félagsmaður í Leyni frá árinu 1976 eða í tæplega hálfa öld.
Alls hafa fjórir gestir í Bönkerinn – Innigolf farið holu í höggi frá því að aðstaðan var opnuð í desember 2023. Einar Gíslason, Karl Þórðarson, Þórólfur Ævar Sigurðsson og Guðmundur Sigurjónsson.
Haraldur Hinriksson sló boltann í holu í upphafshöggi í laufléttri keppni á opnunarkvöldi Bönkersins – en þar fengu keppendur eins margar tilraunir og þeir vildu.
- Skagafréttir hafa á undanförnum átta árum beint kastljósinu að mannlífinu á Akranesi og flutt mörg þúsund fréttir af Skagamönnum nær og fjær.
- Bæjarfréttamiðill sem er opinn fyrir alla er ekki sjálfsagður hlutur.
- Hefur þú tök á því að styðja við bakið á fréttamiðlinum okkar?