„Þessi hópur framhaldsskólanema afsannar allar vondar spár um framtíð æskufólks í okkar skrítna samfélagi; á fjórum vikum skrúfuðu þau saman flókna og mikla sýningu, þau sungu, dönsuðu og túlkuðu persónur leiksins eins og þau hefðu aldrei gert annað,“ skrifar Ólafur Haukur Símonarson höfundur Gauragangs þegar hann lýsir upplifun sinni eftir frumsýningu verksins hjá Leiklistahópnum Melló í Bíóhöllinni um s.l. helgi. Í verkinu fara nemendur Fjölbrautaskóla Vesturlands á kostum undir handleiðslu leikstjórans Einars Viðarssonar, sem fær mikið hrós frá höfundi verksins.

Pistill Ólafs Hauks er hér fyrir neðan.

„GAURAGANGUR Í BÍÓHÖLLINNI Á AKRANESI.

Okkur Gullu var boðið á frumsýningu á Gauragangi í Bíóhöllinni á Akranesi fyrir viku. Mikið óskaplega var gaman! Við hjónakornin nutum þess ótæpilega að sjá þetta fjallmyndarlega, hæfileikaríka unga fólk bera sýninguna fram til afgerandi sigurs. Þarna komu 50 ungmenni að sýningu sem rann fram eins og bráðið smjör svo gleðirík og hrífandi á alla vegu.

Þessi hópur framhaldsskólanema afsannar allar vondar spár um framtíð æskufólks í okkar skrítna samfélagi; á fjórum vikum skrúfuðu þau saman flókna og mikla sýningu, þau sungu, dönsuðu og túlkuðu persónur leiksins eins og þau hefðu aldrei gert annað.

Á bak við þennan glæsilega hóp stóðu foreldrar og kennarar og aðrir velunnarar sem lifandi veggur og veittu sitt fulltyngi svo allt mætti smella rétt á æfingatíma. Rektor skólans sagði eftir sýningu: Kæru nemendur, þegar upp er staðið verður tilurð þessarar sýningar kannski það sem þið munið best frá skólaárunum og sú lexía í lífinu sem lengst mun fylgir ykkur (einhvern veginn svona féllu orðin). Einar Viðarsson leikstjóri og hans liðsmenn eiga mikið hrós skilið fyrir sitt framlag en unga fólkið bar sýninguna fram til sigurs! Takk fyrir okkur!“

Við hjónakornin nutum þess ótæpilega að sjá þetta fjallmyndarlega, hæfileikaríka unga fólk bera sýninguna fram til afgerandi sigurs.

  • Skagafréttir hafa á undanförnum átta árum beint kastljósinu að mannlífinu á Akranesi og flutt mörg þúsund fréttir af Skagamönnum nær og fjær.
  • Bæjarfréttamiðill sem er opinn fyrir alla er ekki sjálfsagður hlutur.
  • Hefur þú tök á því að styðja við bakið á fréttamiðlinum okkar?