Kalman – tónlistarfélag Akraness býður til tónleika í Vinaminni fimmtudagskvöldið 10. apríl nk. kl. 20. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Hljómsveitin Árstíðir fagnar þar útgáfu nýjustu breiðskífu sinnar „VETRARSÓL“.

Platan er sú níunda sem sveitin hefur gefið út á ferli sínum. Hún inniheldur 12 lög á íslensku sem eiga það flest sameiginlegt að vera samin eða útsett af íslenskum tónskáldum fyrir sönghópa og kóra.

Á tónleikunum fá tónleikagestir að heyra lögin af plötunni í bland við eldri lög úr smiðju bandsins. Árstíðum til halds og traust á tónleikunum verður bassasöngvarinn Pétur Oddbergur Heimisson, en hann syngur einmitt í öllum lögunum á plötunni. Pétur hefur komið víða við í hinum klassíska heimi og hefur t.a.m. unnið og sungið með sönghópunum OLGU Vocal Ensemble, M’ANAM og KYRJU.

Hljómsveitin Árstíðir hefur verið starfandi frá árinu 2007 og hefur átt nokkurri velgengni að fagna á sínum ferli, og hefur t.a.m. spilað á tónleikum í meira en 30 mismunandi löndum og unnið til alþjóðlegra verðlauna. Allt frá því að meðlimir sveitarinnar sungu sálminn Heyr himna smið á lestarstöð í Þýskalandi árið 2013, og myndband af þeim flutningi naut gríðarlegra vinsælda um allan heim á YouTube, þá hafa hlustendur sveitarinnar skorað á meðlimi að gefa út plötu sem innihéldi einungis sungin lög í svipuðum stíl – má því segja að platan “VETRARSÓL” sé svar Árstíða þeirri áskorun.

Ólíkt fyrrum plötum Árstíða þá er Vetrarsól ekki aðgengileg á streymisveitum, heldur aðeins í gegnum sölusíðu Árstíða:

https://arstidir.merchstore.nl

Og rafrænt á bandcamp síðu sveitarinnar:

https://arstidir.bandcamp.com/album/vetrars-l-2

Platan verður fáanleg geisladiski og vínyl á tónleikunum.

Boðið verður upp á veitingar í hléi.*

Miðaverð er kr. 4.000 og kr. 3.500 fyrir Kalmansvini.

Miðasala er við innganginn.

Allir velkomnir!

  • Skagafréttir hafa á undanförnum átta árum beint kastljósinu að mannlífinu á Akranesi og flutt mörg þúsund fréttir af Skagamönnum nær og fjær.
  • Bæjarfréttamiðill sem er opinn fyrir alla er ekki sjálfsagður hlutur.
  • Hefur þú tök á því að styðja við bakið á fréttamiðlinum okkar?