Sundfólk úr röðum Sundfélags Akraness náði glæsilegum árangri á Íslandsmótinu í 50 metra laug sem fram fór um helgina. 

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að sundfólk ÍA sýndi mikla baráttu, framfarir og metnað yfir allt mótið. Að ná sjö Akranesmetum, verðlaunum í öllum litum og þremur landsliðslágmörkum er skýr sýn á öfluga og metnaðarfulla sundmenn.

Átta sundmenn frá Sundfélagi Akraness kepptu á Íslands- og Unglingameistaramóti Íslands (IM50) sem fram fór í Laugardalslaug um helgina. Þeir stóðu sig með mikilli prýði og unnu til fjölda verðlauna, settu ný Akranesmet og náðu landsliðslágmörkum.

Verðlaun og lágmörk

Alls unnu keppendur ÍA Íslandsmeistaratitil, fjögur silfurverðlaun og fimm bronsverðlaun. Þrjú landsliðslágmörk náðust, og sett voru sjö ný Akranesmet í einstaklingsgreinum.

Þá náðu þrír sundmenn landsliðslágmörkum, þau Guðbjarni Sigþórsson, Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir og Einar Margeir Ágústsson.

Helstu afrek:

  • Einar Margeir Ágústsson: Landsliðslágmark, Íslandsmeistari í 200 m bringusundi (2:18,52 – nýtt Akranesmet, fyrra metið var 2:19,04 sem hann setti sjálfur fyrr á árinu). Silfur í 100 m og 50 m bringusundi.
  • Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir: Landsliðslágmark, Silfur í 50 m baksundi, brons í 50 m skriðsundi og 50 m flugsundi. Hún bætti 20 ára gamalt Akranesmet í 50 m skriðsundi þegar hún synti 26,45 sek. Fyrra metið var 26,46 sek og átti það Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir frá árinu 2004.
  • Guðbjarni Sigþórsson: Landsliðslágmark , Silfur í 50 m skriðsundi, fjórða sæti í 100 m og 200 m skriðsundi, og bætti Akranesmet í 200 m skriðsundi á 1:56,38 (fyrra metið 1:58,32, sett af Enrique Snæ Llorens árið 2023).
  • Kajus Jatautas: Brons í 50 m baksundi í aldursflokki 18 ára og yngri, ný Akranesmet í 50 m og 100 m baksundi í flokki 15 ára og yngri. Í 50 m baksundi bætti hann met Örns Viljars Kristjánssonar frá 2006 (26,78) nýja metið er 26,55 sek. Í 100 m baksundi bætti hann met Jóns Þórs Hallgrímssonar frá 2007 (1:08,12) nýja metið er 1:06,98.
  • Sunna Arnfinnsdóttir: Brons í 100 m baksundi, fimmta sæti í 200 m baksundi og sjötta sæti í 50m baksundi
    Viktoria Emilia Orlita: Sjötta sæti í 50 m skriðsundi og keppti í sínum fyrstu úrslitum á Íslandsmeistaramóti.
  • Sunna Dís Skarphéðinsdóttir: Náði í fyrsta skipti undir 30 sek. í 50 m skriðsundi (29,99).
  • Karen Anna Orlita: Bætti sig verulega í 50 m skriðsundi og sýndi miklar framfarir á mótinu. Tímabæting hennar skiluðu henni lykilhlutverki í boðsundssveitunum.
  • Boðsundasveitir
    Stúlknasveitir ÍA sýndu góða liðsheild og náðu meðal annars: 4. sæti í 4×100 m skriðsundi (fjórði besti tími í sögu félagsins). 5 sæti í 4×200 m skriðsundi og 4×100 m fjórsundi.

Sundfélag Akraness er afar stolt af sínum keppendum og óskar þeim öllum innilega til hamingju með glæsilegan árangur.

  • Skagafréttir hafa á undanförnum átta árum beint kastljósinu að mannlífinu á Akranesi og flutt mörg þúsund fréttir af Skagamönnum nær og fjær.
  • Bæjarfréttamiðill sem er opinn fyrir alla er ekki sjálfsagður hlutur.
  • Hefur þú tök á því að styðja við bakið á fréttamiðlinum okkar?