Káramenn komust í dag í 16-liða úrslit Mjólkurbikarkeppni karla í knattspyrnu.

Þór Llorens Þórðarson skoraði sigurmark Kára rétt fyrir leikslok, 2-1, en Hektor Bergmann Garðarsson hafði jafnað metin fyrir Kára á 65. mínútu, skömmu eftir að hann kom inn á sem varamaður. 

Leikurinn var í beinni útsendingu á ÍATV og er hægt að sjá mörkin hér fyrir neðan. 

Fylkir, sem leikur í næst efstu deild, Lengjudeildinni, komst yfir á 20. mínútu í fyrri hálfleik með sjálfsmarki Kára. Staðan 1-0 í hálfleik fyrir gestina. 

Það gekk mikið á í Akraneshöllinni – en Fylkismenn fengu alls þrjú rauð spjöld og voru tveimur færri í síðari hálfleik. Fyrirliðinn Ragnar Bragi Sveinsson fékk rautt spjald á 33. mínútu og Eyþór Aron Wöhler, fyrrum leikmaður ÍA, fékk rautt spjald rétt fyrir hálfleik. 

Guðmundur Tyrfingsson, sem er einnig fyrrum leikmaður ÍA, fékk rautt spjald á 95. mínútu. 

Káramenn leika í þriðju efstu deild Íslandsmótsins og var sigurinn því stór gegn félagi sem lék í efstu deild, Bestu deildinni, á síðustu leiktíð. 

  • Skagafréttir hafa á undanförnum átta árum beint kastljósinu að mannlífinu á Akranesi og flutt mörg þúsund fréttir af Skagamönnum nær og fjær.
  • Bæjarfréttamiðill sem er opinn fyrir alla er ekki sjálfsagður hlutur.
  • Hefur þú tök á því að styðja við bakið á fréttamiðlinum okkar?