Karlakórinn Saqqarsik frá Qaqortoq á Grænland er væntanlegur í vinaheimsókn til Íslands dagana 22.-24. apríl nk. í boði Amaroq minerals. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Kórinn fagnar um þessar mundir 20 ára starfsafmæli og samanstendur af kennurum, skrifstofumönnum, veiðimönnum, verkamönnum og trukkabílstjórum.

Stjórnandi kórsins er Angerdla Kielsen-Olsen, sem er þekktur trúbador á Grænlandi.
Þeir syngja tónlist úr mörgum áttum, allt frá þjóðlögum, kirkjutónlist og dægurlögum m.a. eftir stjórnandann sem útsetur flest lögin sem þeir syngja. Hver veit nema við heyrum líka í grænlenskri galdratrommu hjá þeim!
Þeir eru rómaðir fyrir glaðværð og skemmtilegheit á tónleikum þar sem þeir skýra frá textum og sögum frá Grænlandi.
Qaqortoq er vinabær Akraness og má því segja að þeir séu að koma í opinbera heimsókn þar sem þeir munu halda tónleika í Vinaminni, Safnaðarheimili Akraneskirkju föstudaginn 25. apríl kl. 19.30 eftir móttöku í boði bæjarstjórnar. Þar koma einnig fram Karlakórinn Söngbræður undir stjórn Viðars Guðmundssonar og Karlakórinn Smaladrengir.
Þeir munu í ferðinni einnig syngja á Dvalarheimilinu Höfða á Akranesi og í Skálholtskirkju á Sumardaginn fyrsta kl. 14 ásamt Smaladrengjum.
Aðgangur er ókeypis á báða þessa tónleika.
Síðasta vetrardag, þann 23. apríl koma þeir einnig fram á árlegri sumarhátíð Söngfjelagsins í Iðnó kl. 20 en þar verður sumri fagnað að hætti Söngfjelagsins með söngskemmtun og dansleik.
Þar býður Söngfjelagið vinakórnum sínum Kór Akraneskirkju ásamt hljómsveit og ýmsir gestir stíga á stokk s.s. Herbert Guðmundsson, Þokkabót, Smaladrengir og Saqqaarsik frá Grænlandi.
Miðasala á tónleikana í Iðnó er á tix.is og þar er takmarkaður miðafjöldi. Hilmar Örn Agnarsson er stjórnandi Söngfjelagsins og Kórs Akraneskirkju.
- Skagafréttir hafa á undanförnum átta árum beint kastljósinu að mannlífinu á Akranesi og flutt mörg þúsund fréttir af Skagamönnum nær og fjær.
- Bæjarfréttamiðill sem er opinn fyrir alla er ekki sjálfsagður hlutur.
- Hefur þú tök á því að styðja við bakið á fréttamiðlinum okkar?