Fasteignamat á Íslandi hækkar um 9,2 prósent á milli ára.
Þetta kemur fram í skýrslu hjá HMS.

Hækkanirnar eru mestar á Suðurnesjum og Norðurlandi.
Á Akranesi hækkar fasteignamat í sérbýli um 9,1% og í sérbýli 8,8%.
Meðalverð fermetra í sérbýli á Akranesi er 503 þúsund kr. og 607 þúsund kr. í fjölbýli.
Skrifstofuhúsnæði hækkar um 6,8 %, verslunarhúsnæði um 8,2 % og iðnaðarhúsnæði um 10,1 %.
Fasteignamat fyrir árið 2026 hefur nú verið kynnt, en stofnunin reiknar það árlega og birtir í lok maímánaðar. Hægt er að fletta upp fasteignamati einstakra fasteigna með því að smella á hnappinn hér að neðan, en tölfræði að baki fasteignamatinu má finna í gögnum og mælaborðum fasteignaskrár hjá HMS.
Fasteignamat 2026 er 9,2 prósentum hærra en núgildandi fasteignamat. Þá nemur meðalhækkun fasteignamats íbúða 10,2 prósentum, á meðan fasteignamat sumarhúsa hækkar um 11,5 prósent og fasteignamat atvinnueigna hækkar um 4,8 prósent.
Mikil eftirspurn var á íbúðamarkaði í nágrannasveitarfélögum Grindavíkur á síðasta ári og hefur fasteignamat á Suðurnesjum því hækkað umfram landsmeðaltal. Líkt og í fyrra hefur HMS hins vegar ákveðið að halda fasteignamati í Grindavíkurbæ óbreyttu á milli ára, þar sem óvissuástand ríkir og engin markaðsvirkni hefur átt sér stað í sveitarfélaginu.
Fasteignamat hækkar líka umfram landsmeðaltal á Norðurlandi, en þar hefur virði atvinnu- og sumarhúsaeigna hækkað töluvert.
Aðferðarfræðin við útreikning fasteignamats er sambærileg þeirri sem notuð hefur verið síðustu ár eða frá því að HMS tók við málaflokknum árið 2022 og byggir beint eða óbeint á kaupverði sambærilegra fasteigna.
Matsaðferðir eru mismunandi eftir tegundum fasteignanna, en flestar fasteignir flokkast sem íbúðareignir, sumarhús eða atvinnueignir. Fyrir íbúðareignir og sumarhús er nær einungis horft til kaupsamninga, en hjá atvinnueignum eru leigusamningar einnig hafðir til hliðsjónar þegar markaðsvirði þeirra er metið.
Á næstu 12 mánuðum hyggst HMS leggja sérstaka áherslu á endurskoðun á aðferðum við gerð fasteignamats atvinnueigna með það að markmiði að útreikningurinn sé gangsærri og að fasteignamatið endurspegli betur markaðsvirði. Matsaðferð atvinnueigna var síðast endurskoðuð árið 2014.
- Skagafréttir hafa á undanförnum átta árum beint kastljósinu að mannlífinu á Akranesi og flutt mörg þúsund fréttir af Skagamönnum nær og fjær.
- Bæjarfréttamiðill sem er opinn fyrir alla er ekki sjálfsagður hlutur.
- Hefur þú tök á því að styðja við bakið á fréttamiðlinum okkar?