Skagamaðurinn Guðlaugur Þór Þórðarson lék frábært golf þegar mest á reyndi á lokadegi Íslandsmóts unglinga í 17-18 ára flokki drengja í dag.
Keppt var í höggleik og fór mótið fram á Þorláksvelli við Þorlákshöfn.

Guðlaugur Þór lék lokahringinn á 66 höggum eða 6 höggum undir pari.
Guðlaugur Þór er félagsmaður í Golfklúbbnum Leyni og hefur æft golf af krafti undanfarin ár – undir leiðsögn Birkis Þórs Baldurssonar íþróttastjóra Leynis sem er PGA golfkennari.
Guðlaugur Þór var þremur höggum á eftir efsta manni fyrir lokahringinn. Hann lék eins og áður segir frábært golf á lokadeginum þar sem hann fékk alls sjö fugla og hann tapaði einu höggi á lokaholunni.
Samtals lék hann á 4 höggum undir pari og er hann Íslandsmeistari í höggleik 2025 í 17-18 ára flokki pilta.
Lokastaðan:
1. Guðlaugur Þór Þórðarson; Leynir 212 högg (-4)
2. Gunnar Þór Heimisson, GKG 217 högg +1
3. Guðjón Frans Halldórsson, GKG 218 högg +2


- Skagafréttir hafa á undanförnum átta árum beint kastljósinu að mannlífinu á Akranesi og flutt mörg þúsund fréttir af Skagamönnum nær og fjær.
- Bæjarfréttamiðill sem er opinn fyrir alla er ekki sjálfsagður hlutur.
- Hefur þú tök á því að styðja við bakið á fréttamiðlinum okkar?