Ólafur Adolfsson er nýr formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

Ólafur er fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis en hann er á sínu fyrsta kjörtímabili sem þingmaður. 

Í færslu á fésbókarsíðu sinni segir Ólafur m.a. að framundan séu mikilvæg verkefni og nefnir hann þar sérstaklega sveitastjórnarkosningarnar sem fram fara vorið 2026. 

Kæru félagar,

Ég vil byrja á að þakka formanni flokksins, Guðrúnu Hafsteinsdóttur, og þingflokknum fyrir það traust sem mér er sýnt með því að fá að taka að mér þetta mikilvæga hlutverk. Það er mikill heiður að fá að leiða þingflokk Sjálfstæðisflokksins, en jafnframt mikil ábyrgð sem ég tek af alvöru og auðmýkt.

Ég hef í gegnum tíðina lært að það skiptir ekki öllu máli hver gengur út á völlinn með fyrirliðabandið, heldur hvernig liðið stendur saman, vinnur saman og leikmenn styðja hver annan þegar á reynir. Þannig náum við árangri. Þessi reynsla úr knattspyrnunni fylgir mér í stjórnmálin og hún á vel við í dag.

Fram undan eru mikilvægar sveitarstjórnarkosningar. Ég starfaði í sveitarstjórnarmálum á Akranesi í rúman áratug og vona að sú reynsla geti komið að gagni í nýju hlutverki mínu.

Mörg lítil og meðalstór fyrirtæki kalla eftir því að stjórnmálin átti sig á hversu mikil vinna fylgir rekstri. Flókið regluverk og háir skattar eru hluti af veruleika allra atvinnurekenda. Sjálfur hef ég rekið apótek og fátt veitir mér meiri ánægju en að bjóða upp á þjónustu sem hjálpar fólki.

Aftur á móti hef ég kynnst því hversu þunglamalegt kerfið getur verið og ég vil að Sjálfstæðisflokkurinn haldi áfram að styðja lítil og meðalstór fyrirtæki, sem eru bakbein íslensks atvinnulífs. Við verðum að ryðja hindrunum úr vegi öllum til heilla. Það er og verður áfram mitt leiðarstef í öllum mínum störfum á Alþingi Íslendinga.

Mitt hlutverk sem þingflokksformaður verður ekki að stýra hverju skrefi þingmanna flokksins, heldur að tryggja að við spilum sem ein heild, sækjum fram og sameinumst um stefnu og forystu sem þjónar landinu og fólkinu best.

Ég þakka Hildi Sverrisdóttur fyrir hennar góðu störf og hlakka til að vinna áfram með henni. Ég mun án efa leita í hennar þekkingarbrunn. Hún verður áfram öflugur þingmaður og mikilvæg rödd í starfi flokksins.
Ég hlakka til að vinna með þingflokknum að því að efla Sjálfstæðisflokkinn og gera sem mest gagn fyrir land og þjóð. Það er sameiginlegt markmið okkar allra.


  • Skagafréttir hafa á undanförnum átta árum beint kastljósinu að mannlífinu á Akranesi og flutt mörg þúsund fréttir af Skagamönnum nær og fjær.
  • Bæjarfréttamiðill sem er opinn fyrir alla er ekki sjálfsagður hlutur.
  • Hefur þú tök á því að styðja við bakið á fréttamiðlinum okkar?