Knattspyrnufélag ÍA og leikskólar Akraneskaupstaðar hafa sameinað krafta sína í nýju tilraunarverkefni sem snýr að því að leikskólabörn geti stundað knattspyrnuæfingar á leikskólatíma. Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Þar segir ennfremur: 

„Verkefnið er í takt við áherslur Akraneskaupstaðar um íþróttabæinn Akranes og hefur það að markmiði að stuðla að heilsueflingu barna og skapa betra jafnvægi milli skólastarfs, íþrótta og fjölskyldulífs.

Frá og með 19. september til 12. desember munu börn fædd 2020–2021 (8. flokkur drengja og stúlkna) hafa kost á að stunda knattspyrnuæfingar á föstudögum kl. 10:30–11:15.

Æfingarnar standa öllum börnum í þessum aldurshópum til boða og eru skipulagðar af Knattspyrnufélagi ÍA líkt og aðrar æfingar félagsins.

Skráning og greiðsla æfingagjalda fer fram í gegnum Sportabler. Þau börn sem skráð eru á æfingar fá fylgd til og frá æfingu af hálfu ÍA og starfsfólki leikskólanna.

„Þetta frumkvæði Knattspyrnufélags ÍA er til fyrirmyndar og við erum afar ánægð að sjá það verða að veruleika. Verkefnið leggur grunn að jákvæðri reynslu barna af hreyfingu og styrkir jafnframt tengsl milli skólastarfs, íþróttaiðkunar og fjölskyldulífs – sem er í takt við stefnumörkun Akraneskaupstaðar,“ segir Dagný Hauksdóttir, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Akraneskaupstaðar.

„Við erum gríðarlega ánægð með þetta samstarf. Hjá ÍA er okkur mikilvægt að yngstu iðkendurnir fái að njóta leiðsagnar reynslumestu þjálfaranna okkar og að við nýtum aðstöðuna á sem skilvirkastan hátt. Með því að færa æfingarnar inn á leikskólatíma geta börnin æft þegar þau eru orkumeiri og fjölskyldur notið meiri sveigjanleika síðdegis” segir Ingimar Elí Hlynsson, framkvæmdastjóri Knattspyrnufélags ÍA.


Frá vinstri: Aron Ýmir Pétursson yfirþjálfari KFÍA, Dagný Hauksdóttir sviðstjóri skóla- og frístundasviðs, Heiða Björk Guðjónsdóttir aðstoðarleikskólastjóri á Teigasel, Ingunn Sveinsdóttir leikskólastjóri á Garðasel, Vilborg Guðný Valgeirsdóttir leikskólastjóri á Vallarsel, Guðrún Bragadóttir aðstoðarleikskólastjóri á Akrasel og Ingimar Elí Hlynsson framkvæmdastjóri KFÍA. Ásamt hressum krökkum á leikskólaaldri.
  • Skagafréttir hafa á undanförnum átta árum beint kastljósinu að mannlífinu á Akranesi og flutt mörg þúsund fréttir af Skagamönnum nær og fjær.
  • Bæjarfréttamiðill sem er opinn fyrir alla er ekki sjálfsagður hlutur.
  • Hefur þú tök á því að styðja við bakið á fréttamiðlinum okkar?