Fyrrum leikmenn ÍA voru í stóru hlutverki í gær þegar íslenska A-landslið karla í knattspyrnu vann stórsigur gegn Aser­baíd­sj­an í undankeppni Heimsmeistaramótsins. 

Lokakeppni HM fer fram 2026 en alls verða 48 þjóðir sem komast í lokaúrslitin sem fram fara í Kanada, Mexíkó og Bandaríkjunum. 

Leikurinn fór fram á Laugardalsvelli en þjálfari liðsins er Skagamaðurinn Arnar Bergmann Gunnlaugsson. Hákon Arnar Haraldsson er fyrirliði Íslands. Ísak Bergmann Jóhannesson og Stefán Teitur Þórðarson voru í byrjunarliði Íslands og Bjarki Steinn Bjarkason kom inná sem varamaður í síðari hálfleik. 

Ísak Bergmann skoraði tvívegis í 5-0 sigri Íslands. Hann var nálægt því að skora þriðja markið en hann hefur nú skorað alls 6 mörk fyrir A-landslið Íslands. 

Guðlaugur Victor Pálsson skoraði fyrsta mark Íslands rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. 

Ísak Bergmann skoraði með stuttu millibili í upphafi síðari hálfleiks – eða á 47. og 56. mínútu. Albert Guðmundsson skoraði fjórða markið á 67. mínútu og Kristian Nökkvi Hlynsson skoraði fimmta mark Íslands á 73. mínútu. 

Næsti leikur Íslands er gegn stórliði Frakklands en leikurinn fer fram á þriðjudaginn í París. 

Úkraína er fjórða liðið í riðlinum og þjóðirnar mætast þann 10. október á Laugardalsvelli. 

  • Skagafréttir hafa á undanförnum átta árum beint kastljósinu að mannlífinu á Akranesi og flutt mörg þúsund fréttir af Skagamönnum nær og fjær.
  • Bæjarfréttamiðill sem er opinn fyrir alla er ekki sjálfsagður hlutur.
  • Hefur þú tök á því að styðja við bakið á fréttamiðlinum okkar?