Káramenn lönduðu frábærum 4-2 sigri í gær í Ólafsvík þar sem að Kári lagði Víking að velli.
Kwame Quee skoraði fyrsta mark leiksins fyrir heimamenn á 15. mínútu. Sigurjón Logi Bergþórsson jafnaði fyrir Kára á 33. mínútu.
Heimamenn komust yfir á ný með marki frá fyrrum leikmanni ÍA og Kára, Birni Darra Ásmundssyni, á 53. mínútu. Fjórir fyrrum leikmenn ÍA og Kára eru í herbúðum Víkinga, Hektor Bergmann Garðarsson, Gabríel Þór Þórðarson og Kristófer Áki Hlinason, eru ásamt Birni Darra í liðinu.

Matthías Daði Gunnarsson kom inná sem varamaður í liði Kára á 50. mínútu og hann skoraði jöfnunarmarkið tíu mínútum síðar. Í uppbótartíma skoraði Mikael Hrafn Helgason þriðja mark Kára og Þór Llorens Þórðarson bætti við fjórða markinu skömmu síðar. Þeir höfðu báðir komið inná sem varamenn skömmu áður.
Með sigrinum komst Kári úr fallsæti en lokaumferðin í 2. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu fer fram laugardaginn 13. september.
Kári er í 10. sæti með 21 stig en KFG er þar fyrir ofan með 22 stig. Í fallsætunum eru Víðir úr Garði með 20 stig og Höttur/Huginn með 17 stig.
Haukar verða mótherjar Káramanna í síðustu umferðinni og fer leikurinn fram í Akraneshöllinni laugardaginn 13. september kl. 14.00.

- Skagafréttir hafa á undanförnum átta árum beint kastljósinu að mannlífinu á Akranesi og flutt mörg þúsund fréttir af Skagamönnum nær og fjær.
- Bæjarfréttamiðill sem er opinn fyrir alla er ekki sjálfsagður hlutur.
- Hefur þú tök á því að styðja við bakið á fréttamiðlinum okkar?