Karlalið ÍA er á sigurbraut í Bestu deild Íslandsmótsins – en í dag vann ÍA þriðja leikinn í röð.
ÍA sótti bikarmeistaralið Vestra heim á Ísafjörð í fyrstu umferð neðri hluta Bestu deildarinnar. Skagamenn sýndu sínar bestu hliðar og sigruðu örugglega 4-0.

Gísli Laxdal Unnarsson skoraði fyrsta mark leiksins með glæsilegu skoti á 49. mínútu, fjórða mark Gísla á tímabilinu.
Viktor Jónsson bætti við öðru marki á 59. mínútu úr vítaspyrnu, en þetta var áttunda mark hans á tímabilinu.
Varnarmaðurinn Baldvin Þór Berndsen skoraði sitt fyrsta mark á tímabilinu á 75. mínútu og kom ÍA í 3-0.
Haukur Andri Haraldsson bætti við fjórða markinu á 79. mínútu en þetta er þriðja mark Hauks á tímabilinu.
Með sigrinum er ÍA með 25 stig í þriðja neðsta sæti – en þar fyrir neðan í fallsætunum tveimur eru KR og Afturelding. KR á leik til góða en tveir leikir fara fram í neðri hlutanum sunnudaginn 21. september. Þar mætir KA liði KR á heimavelli og ÍBV tekur á móti Aftureldingu.
Næsti leikur ÍA er gegn KR á heimavelli.
Sunnudagur 28. september: ÍA – KR
Laugardagur 4. október: KA – ÍA
Mánudagur 20. október ÍBV – ÍA
Laugardagur 25. október ÍA – Afturelding
