Sóknarleikur var í aðalhlutverki þegar ÍA og Njarðvík mættust í kvöld í 3. umferð Bónusdeildar karla í efstu deild Íslandsmótsins í körfuknattleik. 

Úrslitin réðust í framlengingu og höfðu gestirnir frá Suðurnesjum betur 130:119. 

Þetta var fyrsti sigur Njarðvíkurliðsins á tímabilinu en ÍA er með 1 sigur og 2 töp – og var þetta fyrsti tapleikur ÍA á heimavelli í rúmt ár. 

Staðan var 32-30 eftir fyrsta leikhluta, staðan í hálfleik var 55:53 fyrir ÍA. Njarðvík komst yfir eftir þriðja leikhluta, 83:80. Staðan var 109:109 að loknum venjulegum leiktíma. Njarðvík náði góðum tökum á leiknum þegar mest á reyndi og skoraði 21 stig gegn 10 í framlengingunni. 

Miðherjinn Gojko Zudzum og skotbakvörðurinn Josip Barnjak voru bestu leikmenn ÍA.  Zudzum var með 30 stig og 9 fráköst og Barnjak skoraði 29 stig, gaf 9 stoðsendingar og tók 6 fráköst. 

Bandaríkjmaðurinn Darnell Cowart sýndi einnig hvað í honum býr en hann skoraði 34 stig – en varnarleikur hans var langt undir meðallagi – líkt og í undanförnum þremur leikjum. 

Styrmir Jónasson og Lucien Thomas Christofis voru góðir í vörn og munaði mikið um að Styrmir var utan vallar með 5 villur þegar mest á reyndi á lokakaflanum. 

Tölfræði leiksins er hér: 

Myndasafn leiksins er hér: