Sjóvarnargarðar á afmörkuðum svæðum við Krókalón og norðurenda Ægisbrautar verða endurgerðir og bættir á næstunni.

Bæjarstjórn Akraness hefur samþykkt leyfi til slíkra framkvæmda en Vegagerðin sér um framkvæmdina. 

Við Krókalón verður sjóvörnin bætt á 200 metra kafla og er áætlað að um 2500 rúmmetrar af grjóti fari í þá framkvæmd. 

Við norðurenda Ægisbrautar verður sjóvarnargarðurinn lengdur um 25 metra til norðurs og um 300 rúmmetrar af grjóti fara á það svæði. 

Áætlað er að verkið hefjist fljótlega og því verði lokið í mars á næsta ári.