Menningarverðlaun Akraness 2025 voru afhent í gær við setningu Vökudaga. Þetta er í 19. sinn sem verðlaunin eru veitt.
Sjálfstæð snælduútgáfa með aðsetur á Akranesi, Ægisbraut Records, fengu verðlaunin að þessu sinni. Þetta kemur fram í tilkynningu sem er hér fyrir neðan.

„Ægisbraut Records sérhæfir sig í kasettuútgáfu og hefur á undanförnum árum skapað sér mikilvægan sess í íslensku tónlistarlífi.
Útgáfan leggur áherslu á að varðveita, gefa út og kynna jaðartónlist — bæði frá Akranesi og öðrum landshlutum — og stuðlar þannig að fjölbreytni og lifandi menningarsenu. Með starfsemi sinni halda þeir einnig á lofti kasettunni sem menningarlegum miðli og tengja þar saman nýsköpun, sögulegt gildi og listsköpun.
Starf Ægisbrautar Records nær þó langt út fyrir útgáfuna sjálfa. Þeir reka æfingarhúsnæði fyrir hljómsveitir á Akranesi og hafa staðið fyrir fjölda tónleika og viðburða, bæði á heimavelli og annars staðar á landinu.
Þar ber hæst Lilló Hardcorefest, árleg hátíð sem haldin hefur verið í gamla Landsbankanum á Akranesi frá árinu 2022. Hátíðin hefur skapað vettvang fyrir jaðartónlistarsenuna á Íslandi og gefið bæði nýjum og reyndum tónlistarmönnum tækifæri til að koma fram, kynna verk sín og mynda tengsl við annað listafólk.
Sérstaklega skal tekið fram að á viðburðum Ægisbrautar Records er frítt inn, engin vímuefni leyfð og allir aldurshópar velkomnir, sem gerir tónlistina aðgengilega og stuðlar að jákvæðu og uppbyggilegu menningarlífi fyrir ungt fólk á Akranesi.
Ægisbraut Records hefur jafnframt lagt metnað í að styðja við ungt tónlistarfólk og skapa raunveruleg tækifæri fyrir næstu kynslóð listamanna. Þeir hafa unnið í samstarfi við Akraneskaupstað og Þorpið við að halda úti æfingarrými fyrir ungar hljómsveitir, staðið fyrir Rokksmiðju á Vökudögum og tekið þátt í listavinnuskóla Akraness 2025. Þetta starf hefur þegar borið árangur, þar sem að hljómsveitin Nöll sem nýtur stuðnings Ægisbrautar hlaut 2. sæti í tónlistarkeppni í Vestmannaeyjum fyrr á árinu.
Frá stofnun, árið 2021, hefur útgáfan gefið út nær tuttugu kasettur með fjölbreyttum listamönnum, þar á meðal Krownest, Gaddavír og Blóðmör. Um helmingur útgáfunnar er tónlistarfólk af Vesturlandi, sem undirstrikar mikilvægi Ægisbrautar Records sem svæðisbundins menningarafls og vettvangs fyrir skapandi starf á landsbyggðinni. Hljómsveitin Gaddavír, sem æfir í húsnæði Ægisbrautar Records, sigraði Wacken Metal Battle á Íslandi og keppti fyrir hönd landsins í Þýskalandi — þar sem ÍA-fáninn blakti í beinni útsendingu. Það er ekki aðeins áfangasigur fyrir hljómsveitina heldur einnig sterk og jákvæð bæjarkynning fyrir Akranes sem lifandi og skapandi menningarsamfélag.
Forsprakkar Ægisbrautar Records, Bergur Líndal Guðnason og Kristján Alexander Reiners Friðriksson, hafa sýnt einstakt frumkvæði og elju í að efla menningu og tónlist á Akranesi. Þeir hafa ásamt öðrum meðlimum Ægisbrautar Records þeim Jóni Gunnari Garðarssyni, Reyni Þór Sigmundssyni, Bergþóri Viðarssyni, Guðjóni Jósef Baldurssyni, Guðjóni Þór Grétarssyni, Þorra Líndal Guðnasyni og Þórði Helga Guðjónssyni, byggt upp vettvang þar sem ungt fólk og jaðartónlist fær rými, virðingu og tækifæri til að vaxa. Þannig er hópurinn fyrirmyndir fyrir ungt fólk á Akranesi og sýna í verki hvernig ástríða og skapandi hugsun geta eflt samfélagið allt.
Starf Ægisbrautar Records hefur vakið mikla og jákvæða athygli í fjölmiðlum, meðal annars í Skessuhorni, á RÚV, X-inu og í þættinum Menningin í Kastljósi þar sem þeir kynntu starfsemi sína í viðtali við Guðrúnu Sóleyju Gestsdóttur.
Með öllu framangreindu hefur Ægisbraut Records markað djúp spor í menningarlíf Akraness og sýnt hvernig frumkvæði, samvinna og ástríða geta skapað vettvang fyrir fjölbreytt og sjálfbært menningarstarf. Nefndin telur starf þeirra hafa haft veruleg og jákvæð áhrif á lifandi og fjölbreytt menningarlíf bæjarins og að þeir séu því afar verðugir handhafar menningarverðlauna Akraneskaupstaðar.“

