Eigendur húsnæðis við Kirkjubraut 4-6 hafa enn á ný sótt um breytingu á deiliskipulagi. Að þessu sinni er sótt umað heimilt verði að útbúa gistiheimili á jarðhæð ásamt atvinnurými.
Í umsókninni kemur fram að ætlunin er að bjóða upp á allt að 12 herbergi á gistiheimili, samhliða atvinnurými. Gengið yrði inn í gistiheimilið frá Suðurgötu 67.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til að erindið fari í grenndarkynningu.
Kirkjubraut 4-6 er í eigu Daníels Daníelssonar – en þar var Nína verslun til húsa þar til verslunin flutti í nýrra húsnæði við Kirkjubraut 12 í mars 2019.
Daníel sótti um í byrjun þessa árs að breyta áðurnefndu húsnæði í gistiheimili – en því var hafnað af skipulags – og umhverfisráði í febrúar s.l.
Hann hafði áður sótt um að breyta þessu rými í íbúðarhúsnæði og var því erindi hafnað í október árið 2023.
Þetta er því í þriðja sinn sem Daníel fer með erindi inn í ráðið um breytingar á húsnæðinu sem hefur að mestu staðið autt í um fimm ár.
Að þessu sinni er gistiheimili – og atvinnurými blandað saman í umsóknina og verður fróðlegt að sjá hver niðurstaðan verður í stjórnsýslunni við þessari ósk.





